1
Fólk

Eru komnar með nóg af Helga Björns

2
Fólk

„Tvær drottningar sem fæla burt allt jólastressið“

3
Fólk

„Ég vil byggja eitthvað sem Ísland getur verið stolt af“

4
Innlent

Kópavogsbúi dæmdur fyrir stórfurðulegt vopnasafn

5
Menning

Reis hátt upp úr röð áfalla og reynir að hjálpa

6
Heimur

Bresk fjölskylda reyndi að koma látinni konu í flug

7
Menning

Seiðmagnaðir Jülevenner-tónleikar Emmsjé Gauta

8
Innlent

Yfirfærir hneykslismál Útlendingastofnunar á aðrar stofnanir

9
Innlent

Glæpamaður reyndi að hlaupa undan lögreglunni

10
Innlent

Hlynur nefbraut mann á hárgreiðslustofu

Til baka

Reis hátt upp úr röð áfalla og reynir að hjálpa

Björg Þórhallsdóttir, myndlistarkona og athafnakona í Noregi, leggur áherslu á að gleðja aðra hvort sem það er í gegnum myndlistina eða önnur verkefni. Sjálf hefur hún þurft að vinna mikið í sér í kjölfar ýmiss konar áfalla og það hjálpar henni að hjálpa öðrum.

Björg Þórhallsdóttir
Mynd: Víkingur

Hún er ljóshærð, með ljósblá augu og það er stutt í brosið og hvellandi hláturinn. Hún fæddist á Íslandi og var eins árs þegar fjölskyldan flutti til Noregs þar sem hún ólst upp að mestu leyti. Hún afsakar sig án þess að neinn hafi minnst á íslenskuna hennar og segist tala „1975-íslensku“.

Fjölskyldan, foreldrar og þrjár dætur, bjuggu fyrst í Bergen og síðan fluttu þau til Lommedalen í Bærum fyrir utan Osló. Þau komu reglulega í heimsókn til Íslands og talar Björg um minningar frá Íslandi þegar hún var lítil.

„Það var svo „magical“ að koma til Íslands af því að ég á svo mikið af æðislegum frændsystkinum. Mér fannst alltaf vera svo gott að vera á Íslandi,“ segir Björg sem finnst enn jafngott að koma til Íslands. Hún gæti hugsað sér að dvelja á landinu í einhvern tíma og halda sýningu á verkum sínum. Og það er oft talað um Ísland á heimilum Íslendinganna í Noregi.

Björg er með mörg járn í eldinum. Þar má nefna samkomuna Hjertefred í Noregi sem haldin er á 26 stöðum í kringum allrasálnamessu þar sem listamenn koma fram og er markmiðið að tala um sorg og dauða og minnast hinna látnu. Síðan er það námskeiðið Destionasjon glede sem á að styrkja þátttakendur. Og nýjasta bók Bjargar, GLEÐI BJARGAR, er komin út í íslenskri þýðingu. Eins og nafn bókarinnar gefur til kynna er þar að finna heilræði til að finna gleðina.

Lækning listarinnar

Björg greindist með ADHD fyrir fjórum árum og segist hún hafa átt erfitt með að einbeita sér í skólanum sem barn og unglingur. Hún er auk þess lesblind og með talnablindu. Svo segist hún hafa verið mjög feimin.

„Mér fannst vera erfitt að vera í skólanum en ég er voðalega þakklát fyrir að ég gat teiknað,“ segir hún og átti hún það til að teikna í stað þess að skrifa þegar hún þurfti að útskýra hlutina.

Og þótt hún ætti erfitt með að lesa elskaði hún að vera á bókasafni og var hrifin af bókum um lækninn Albert Schweitzer sem vann um tíma í Afríku. „Mig langaði til að verða læknir þegar ég yrði stór og fara til Afríku og hjálpa börnum. Þegar ég varð eldri vildi ég hjálpa heiminum á minn hátt og ég geri það með listinni.“



Hópnauðgun

Einn daginn þegar Björg var níu ára var hún úti að leika sér með strákum í bekknum þegar hópur unglingsstráka birtist. Björg segir að þeir hafi verið um tíu talsins og sennilega átján til tuttugu ára. Og þeir hópnauðguðu níu ára gömlu barninu. Skólabræður hennar horfðu á.

Björg sagði engum frá. Hún þorði það ekki. Hún var hrædd um að nauðgararnir myndu gera sér eitthvað meira síðar.

Litla stúlkan var ekki bara hrædd. Hún fann líka fyrir skömm. „Ég skammaðist mín svo mikið. Mér fannst ég vera svo óhrein. Þetta er ekki mín skömm heldur er skömmin hjá þeim sem gerðu þetta.“ Það gerði hún sér ekki grein fyrir á þessum tíma. Hún segist hafa þvegið sér þrisvar á dag en það var sama hve mikið hún þvoði sér, henni fannst hún aldrei vera hrein.

„Ég breyttist mjög mikið eftir þetta.“

Saklaust barnið missti auk þess sjálfsvirðinguna. „Ég breyttist mjög mikið eftir þetta. Ég varð mjög lokuð.“

Það hjálpaði Björgu að fjölskyldan flutti til Malasíu sama ár og henni var nauðgað en þar bjuggu þau í þrjú ár. Henni fannst gott að komast frá Noregi. „Það var svo mikill léttir af því að ég var svo hrædd. Ég elskaði að búa þar og ég held að þessi ár hafi bjargað mér.“

Svo kom að því að fjölskyldan flytti frá Malasíu. „Pabbi og mamma ætluðu að flytja til Íslands eftir að við höfðum búið í Malasíu en þeim fannst þau ekki getað slitið okkur upp frá rótum í Noregi. Strákarnir í bekknum mundu alveg hvað þeir höfðu séð. Þeir vissu ekki hvernig þeir áttu að vera gagnvart mér svo þeir voru ekkert voðalega góðir. Og þá urðu stelpurnar ekkert voðalega góðar við mig heldur.“ Það var farið að leggja Björgu í einelti. „Það voru sögð leiðinleg orð, ég sat alein og krakkarnir vildu ekki leika við mig. Ef það var til dæmis verið að spila þá fengu allir aðrir spil en ekki ég. Þetta voru tvö erfið ár og svo skipti ég um skóla.“

Lærði að komast af

Hinn stóri heimur kallaði en eftir að hafa búið í Malasíu í þrjú ár vildi Björg kynnast heiminum enn meira. Hún vildi kynnast öðrum menningarheimum. Hún ákvað á unglingsárunum að gerast skiptinemi og 17 ára gömul flutti hún til Mexíkó. Og listin þar heillaði.

„Ég elskaði list Frida Kahlo. Alla litina. Það er ótrúlegur kúltúr þarna svo sem frá Maja-indíánunum. Mér fannst vera ótrúlega spennandi að fara þangað og kynnast fólkinu og kúltúrnum.“

Árið í Mexíkó varð ekki eins og hún bjóst við. Hún flutti til fjölskyldu á vegum skiptinemasamtaka en henni fannst fjölskyldan ekki sinna sér sem skyldi og hún fékk aðra fjölskyldu til að búa hjá.

Áföllin dundu þó enn yfir en Björgu var tvisvar sinnum nauðgað þetta ár í Mexíkó. Og hún sagði ekki frá og bætir við að það hafi gerst að konur hafi farið illa út úr því ef þær segja þar frá nauðgun.

Björg segir að í Mexíkó hafi hún lært að komast af. „Það er sama hvað hlutirnir eru erfiðir, maður getur gert eitthvað og það hefur gefið mér styrk.“

Lífið hélt áfram. Og Íslendingurinn fór þetta á hnefanum. Og svo dundi enn eitt áfallið yfir.

Einn daginn þegar Björg var í Mexico City fór að blæða mikið úr móðurlífi hennar. Hún segist telja að hún hafi misst um tvo lítra af blóði en skiptinemasamtökin sáu til þess að hún var lögð inn á sjúkrahús. Í ljós komu samgróningar vegna klamidíusýkingar en Björg hafði smitast af klamedíu þegar henni var hópnauðgað níu ára gamalli. Og það blæddi svona mikið vegna þess að annar eggjaleiðarinn sprakk út af samgróningunum. „Þess vegna fékk ég innri blæðingar.“ Björg segist hafa fengið helling af mexíkósku blóði í sig.

Haft var samband við foreldrana í Noregi og þeim tilkynnt hvað hafði gerst. „Það var beðið fyrir mér á Íslandi og amma Svava sendi lækni að handan til mín. Ég vaknaði einhvern tímann við að einhver öskraði „es um milagro, es un milagro“ eða „þetta er kraftaverk, þetta er kraftaverk“ en svo datt ég út aftur.“

Þegar Björg vaknaði úr kóma sá hún móður sína grátandi á stól við rúmið. Móðir hennar spurði af hverju hún hafði ekki sagt sér frá nauðguninni en hún hafði lesið í læknaskýrslu að Björg hafi verið búin að vera smituð af klamidíu í mörg ár.


Leið illa í mörg ár

Björg fór með móður sinni strax heim til Noregs þegar hún hafði jafnað sig á sjúkrahúsinu. „Ég gat ekki verið þarna lengur.“ Og hún fór til sálfræðings. Hún segir að hann hafi lítið hjálpað en að það hafi ekki verið fyrr en hún fór svo til þerapista tæplega fertug sem sér hafi farið að líða betur og þá losnaði hún við ótta og kvíða. „Þá hugsaði ég með mér hvað mér hefði getað liðið betur í öll þessi ár ef ég hefði fengið slíka meðferð þegar ég var 18 ára. Þegar ég var yngri notaði ég alltaf glugga sem spegil til að sjá hvort einhver gengi fyrir aftan mig; ég var búin að vera hrædd svo lengi.“

Nauðganirnar brutu hana niður en hún segir að samt sem áður hafi hún hugsað með sér að hún væri mjög sterk. „Ég lærði að maður tapar ef maður lítur á sig sem fórnarlamb. Ég vildi ekki að það yrði sjálfsmynd mín. Og ég ætlaði ekki að hugsa „aumingja ég, af hverju skeði þetta fyrir mig“. Ég ákvað frekar að hugsa um hvað ég gæti lært af þessu. Fimmta hver kona hefur upplifað eitthvað svona. Ég veit að skömmin er ekki hjá mér heldur þeim sem nauðguðu mér. Þetta er hræðilegt en það þarf að öskra og gráta og fá útrás fyrir þetta og halda svo áfram en ekki láta þetta taka meira frá lífinu. Það á ekki að láta þá sem nauðga eyðileggja meira en þeir hafa gert. Og ef maður lítur á sig sem fórnarlamb lætur maður þá eyðileggja restina af lífinu. Og ég vil það ekki.“

Björg Þórhallsdóttir

Heillaðist af grafík

Björg fór í myndlistarnám í Asker kunstskole á unglingsárum. Hún hefur verið í myndlistinni síðan en hún lærði í Noregi, á Íslandi, á Spáni og í Frakklandi.

Björg flutti til Barcelona til að fara í myndlistanám. Hún segist hafa verið svo hrædd út af áföllunum sem hún hafði orðið fyrir en henni hafði fundist hún vera öruggari í Noregi og á Íslandi. „Það var kannski erfiðara fyrir mig að fara þangað heldur en fyrir marga aðra. Ég var svo hrædd og man að ég var ísköld og ég svitnaði þegar ég sat í leigubílnum frá flugvellinum. En þetta er það besta sem ég hef gert. Þetta opnaði heiminn fyrir mér.“

„Ég var ísköld og ég svitnaði þegar ég sat í leigubílnum frá flugvellinum“

Þess má geta að fyrsta daginn í listaháskólanum á Spáni var hún færð úr fyrsta bekk yfir í þriðja bekk og þegar hún útskrifaðist var hún með bestu einkunn í skólanum síðan 1978. Og í Barcelona nam hún mósaíklist, marmaraskurð, vinnslu steindra blýglugga að miðaldasið og hún lærði að mála freskur.

„Ég er svo þakklát fyrir myndlistina af því að ef maður er leiður eða ef manni líður illa þá fær maður í myndlistinni útrás fyrir tilfinningarnar og meira að segja tilfinningar sem er erfitt að skilja,“ segir Björg sem heillaðist af grafík á þessum árum.

Eric Scott: Ást við fyrstu sýn

Í Frakklandi fékk Björg árið 2002 það verkefni að búa til steind gler í jóga-hof í Suður-Frakklandi fyrir eiginkonu efnaðs manns og listunnanda sem átti meðal annars listaverk sem Björg hafði séð myndir af í listasögubókum. Ein myndin var frekar nýleg og á henni var maður að synda í kafi. Hún spurði hver hefði málað myndina. Það var enski listmálarinn Eric Scott. Henni var sagt að Eric byggi í fjöllunum á svæðinu og sagðist maðurinn geta hringt í hann svo Björg gæti hitt hann.

Og Björg fór upp í fjöllin. Hún beið eftir listamanninum þegar hún sá myndarlegan mann ganga í áttina til sín. Þetta var Eric.

„Mér fannst hann vera flottasti maður sem ég hafði nokkurn tímann séð. Mér fannst hann vera svo ótrúlega myndarlegur og ég byrjaði að skjálfa í hnjánum. Ég varð eiginlega svolítið hrædd af því að hann var svo myndarlegur.“

Eric settist við borðið þar sem Björg sat og eftir um korters spjall spurði hann hvort hún vildi giftast sér. Og hún sagði „já“.

Þetta var ást við fyrstu sýn. Hún var 26 ára. Hann 56 ára. Og hún flutti inn til hans.

„Vinir hans sem höfðu þekkt hann alla ævi sögðu að þeir hefðu aldrei séð hann svona. Við vorum svona bæði tvö.“

Parið gekk í hjónaband um mánuði síðar í Miami og síðar var haldin fjögurra daga brúðkaupsveisla í Suður-Frakklandi. Hjónin bjuggu saman í Suður-Frakklandi, nálægt Nice, og ári eftir að þau kynntust fæddist sonur þeirra Þórhallur sem er alltaf kallaður Tolli.

Eric drakk. Hann var alkóhólisti. „Maðurinn sem ég elskaði hvarf oft um klukkan tólf eða eitt á daginn þegar hann byrjaði að drekka. Ég fór frá honum nokkrum sinnum af því að hann drakk of mikið og svo lofaði hann mér að hann myndi hætta og svo kom ég aftur en hann hélt áfram að drekka. Þetta var svolítið fram og til baka þar til hann dó. Þetta var erfitt, sérstaklega eftir að ég eignaðist barn. Eric var fínn maður en það er rosalega erfitt að búa með einhverjum sem er að drekka. Margir Íslendingar vita það.“

Árin með Eric urðu fjögur en hann varð bráðkvaddur vorið 2005. Þótt ýmislegt hafi gengið á var sorgin nístandi.

„Ég elskaði hann og ég elska hann ennþá.“

Björg saknar hans.

„Mér þykir ennþá rosalega vænt um hann. En hann var þrjátíu árum eldri en ég. Ég veit ekki hvað myndi ske núna vegna þess að hann myndi vera áttræður. Ég er bara voðalega þakklát að ég hitti hann og alveg ótrúlega þakklát fyrir að við eignuðumst Tolla.“



Samkoma til að tala um sorg

Eric lést í maí og fyrsta sunnudaginn í nóvember sama ár var haldin samkoman Hjartefred sem er hugarfóstur Bjargar og hefur síðan verið haldin árlega í Noregi. Í dag fer samkoman fram á tuttugu og sex stöðum í landinu. Fólk safnast þá saman til að tala um bæði sorg og dauða og finnur hjálp í samkenndinni.

„Ég er búin að finna út að ef maður hjálpar eða gefur öðrum það sem mann vantar sjálfum þá tekur það sorgina í burtu. Ef maður er til dæmis einmana þá á maður að hjálpa fólki sem er einmana. Og ég hjálpaði öðru fólki út úr sorginni sinni og það hjálpaði mér í minni sorg. Það er alveg ótrúlegt.“

Dagskráin á Hjertefred minnir á ævintýraheim og koma til dæmis þekktir tónlistarmenn fram. Björg segist aðallega vilja vera með þekkta tónlistarmenn af því að hún vill að gæðin séu mikil. Og verur úr verkum Bjargar virðast lifna við. „Það er eins og fólk gangi inn í málverkin mín. Fólk klæðir sig til dæmis eins og engla og dansar eða englar sitja við vatn og veiða hjörtu - af því að vatn er lífið. Dagskráin stendur yfir í einn klukkutíma og fólk er beðið um að klappa ekki á milli atriða heldur bíða með það þar til í lokin. Þannig skapast falleg og róleg stund.

Við eigum að lifa á meðan við getum og njóta þess á meðan við getum. Öllum finnst heimurinn þeirra vera svo stór og mikilvægur. Ég ætla bara að hafa gaman og ekki búa til vandamál. Maður getur bara verið með eina tilfinningu í einu. Ef maður er þakklátur getur maður ekki verið samtímis reiður eða dapur. Ég er upptekin af því. Á hverju kvöldi og morgni hugsa ég um tíu hluti sem ég er þakklát fyrir. Það er oft erfitt þegar maður byrjar en svo verður það auðveldara.“

Björg trúir því að eitthvað taki við eftir þetta líf. „Ég held að Eric sé hérna að passa upp á mig. Ég finn oft að hann er hérna að passa upp á mig og Tolla.“

Myndlistin og Ísland

Við tölum meira um myndlistina. Björg er spurð hvers vegna hún vildi á sínum tíma leggja listina fyrir sig og gera hana að ævistarfi.

„Ég get bara ekki lifað án hennar,“ segir Björg sem hefur í mörg ár getað lifað af listinni. Hún segist hafa selt fyrstu myndina þegar hún var fjórtán ára og haldið fyrstu sýninguna þegar hún var sautján ára.

Það virkar svo mikil gleði í myndunum og oft fá setningar að fljóta með. Einhver uppbyggileg orð.

„Ég vil að myndirnar gefi fólki styrk og að þær minni það á hvert það er þegar það gleymir því og hvað það er sterkt. Svo minni ég það á kraftinn sem er innra með því. Við gleymum oft hvað við erum frábær eða sterk af því að einhver annar er búinn að segja eitthvað annað við okkur eða gera okkur eitthvað.“

Björg bjó á Spáni um árabil og einbeitti sér þar að list sinni. Þegar hún er spurð hver séu helstu áhrifin þaðan nefnir hún meiri liti. „Ég ber virðingu fyrir þeirri tækni sem notuð var í gamla daga. Í Barcelona er gömul list og það er erfitt að búa til almennilega list með gamalli tækni eins og í gamla daga. Ég á aldrei eftir að nota tölvur í vinnu minni af því að mér finnst vera gott að vinna með höndunum og vinna með gamla tækni.“

Hún er dugleg og galdrar fram hvert listaverkið á fætur öðru og segir að ADHD sé eins og ofurkraftur. „Allir eru að spyrja hvernig ég geti gert svona mikið. Ég hef alltaf hugsað að það sé af því að ég er Íslendingur en ég held að það sé af því að ég er Íslendingur með ADHD.“

Hún segir að einkenni ADHD felist í að sér finnist vera erfitt að einbeita sér. „Ég er búin að læra að ef ég vinn í tuttugu mínútur þá þarf ég að taka pásu og hreyfa mig í tíu mínútur og svo get ég unnið í tuttugu mínútur í viðbót. Ég er með stelpu sem vinnur fyrir mig sem gerir allt sem mér finnst vera leiðinlegt. Hún er PA - persónulegur aðstoðarmaður - og gerir allt mögulegt.“

Björg býr í ævintýralega fallegu húsi á hálfgerðri eyju fyrir utan Osló. Húsið er eins og stórt listaverk. Enn eitt listaverkið. Hvítt, stórt timburhús sem hún er búin að skreyta að framan með mósaíklistaverkum. Og litadýrðin inni er einstök. Þetta er næstum því eins og að búa uppi í sveit og svo á Björg auk þess lítið hús uppi í fjöllum þar sem henni finnst gott að vera og mála. Og hún tekur undir hvað það er gott að vera í náttúrunni.

Gleði Bjargar

Björg er með mörg járn í eldinum. Eitt þeirra eru bókaskrif og myndskreyting bóka og margir Íslendingar þekkja dagbækurnar hennar, Tíminn minn.

„Ég er búin að skrifa helling af bókum. Ég skrifaði fyrstu bókina þegar ég var 26 ára sem er ljóðabók. Eftir að Eric dó skrifaði ég bók með Tolla sem heitir „Pabbi minn býr á himnum““, segir Björg sem hefur skrifað og myndskreytt fleiri bækur í þeim tilgangi að innihald þeirra hjálpi syrgjendum. Svo kom í nóvember út bók í Noregi um Hjertefred.

Nýjasta bók Bjargar sem komin er út í íslenskri þýðingu heitir GLEÐI BJARGAR.

Gleði Bjargar Björg Þórhallsdóttir
Bók BjargarBókin Gleði Bjargar er komin út á íslensku eftir að hafa vermt efsta sætið á metsölulistum í Noregi á tímabili.

„Ég er upptekin af því að öllum líður stundum illa. Ég er búin að upplifa vonda hluti og við erum öll búin að upplifa vonda hluti. Ég er búin að búa til þessa bók, GLEÐI BJARGAR, af því að ég veit að það er erfitt að vera manneskja. Og hún er búin að hjálpa þannig að fólki líður betur og verður ánægðara en ella þótt að eitthvað slæmt gerist. Það eiga alltaf eftir að gerast vondir hlutir á meðan við lifum.“

Nýja bókin er eins og listaverk. Mikill texti og svo eru það myndirnar.

„Mér finnst þetta vera flottasta bókin sem ég hef skrifað og ég er voðalega ánægð með að hún skuli vera gefin út á Íslandi. Allt sem ég er búin að læra um hvernig maður getur verið hamingjusamur er ég búin að skrifa um í þessari bók. Hún kom út í Noregi í fyrra og hef ég talað við fólk sem segir að hún sé á náttborði þess. Hún er búin að hjálpa því svo mikið.“

Hvað gefur það Björgu að hjálpa öðrum? „Ég verð svo lukkuleg. Ég verð svo ánægð vegna þess að ef ég get gert líf annarra betra þá líður mér svo vel.“ Og það hjálpar henni í hennar eigin sorg sem hún hefur upplifað vegna áfalla og makamissis.

Í nýju bókinni segir meðal annars í lok hennar: „Ég vona að þessi bók hjálpi þér að líta upp svo að gleðin fái meira pláss í lífi þínu. Ef þú einbeitir þér að viðfangsefnunum í þessum köflum muntu sjá að lífsviðhorf þitt verður enn bjartara. Ég óska þess að þú sjáir heiminn í jákvæðu ljósi. Hugsaðu um hve lánsöm þú ert að hafa fengið lífið að gjöf einmitt núna! Stjórnaðu tímanum sem þú hefur fengið á jörðinni. Vertu skipstjóri í eigin lífi!“

Björg Þórhallsdóttir
Gleðin sem áfangastaðurAtvikið sem gaf mest var þegar unglingsstúlka sem hlustaði á boðskapinn um að velja gleðina hvarf frá sjálfsvígi.
Mynd: Víkingur

Destinasion glede

Destinasion glede er eitt af verkefnum Bjargar og má finna um það á heimasíðu hennar, https://bjorgthorhallsdottir.com, og er verkefnið hugsað til að þátttakendur geti upplifað meiri gleði. Björg og ýmsir þekktir sérfræðingar leiða þátttakendur í gegnum innra ferðalag í átt að gleði og var sett saman námskeið með efni til að þátttakendur myndu finna raunverulegar breytingar. Þeir geta tekið þetta á eigin hraða og einbeitt sér að þeim sviðum sem þeir þurfa helst að breyta. Um er að ræða upptökur sem hægt er að finna á heimasíðunni og er hver upptaka um fimm mínútur að lengd.

„Ég veit ekki hve margar konur hafa komið til mín og sagt að þær hafi íhugað sjálfsmorð og þetta var það síðasta sem þær gerðu og núna lifa þær lífi sem þær elska. Ég hef fengið margar konur til að fara úr ofbeldissamböndum. Svo eru margar sem hafa ætlað að skilja en núna líður þeim vel með manninum af því að þær finna frið innra með sér. Eða þá að þær skildu en tóku aftur saman við manninn og líður núna vel. Á sama tíma líður þeim almennt betur.“

Sumar konur hafa sent Björgu gjafir sem þakklætisvott. „Ég fæ prjónaða sokka og peysur og allt mögulegt í pósti og krakkar hafa sent mér póstkort heim og þakkað mér fyrir að þeir fengu mömmur sínar til baka.“

Björg hefur um árabil verið með fyrirlestra víða í Noregi og það sem hún segir að hafi gefið sér mest sé að halda fyrirlestra í Norður-Noregi fyrir aðstandendur fólks í neyslu hvort sem það eru börn eða foreldrar. Hún segir að hún sjái þá að hún sé virkilega að hjálpa. Hún tekur eitt dæmi og segist eiga erfitt með að tala um þetta án þess að fara að gráta. Hún hitti unglingsstúlku sem vann í verslun og tóku þær tal saman.

„Hún sagðist hafa verið búin að ákveða að fremja sjálfsmorð þar sem bræður hennar væru alkóhólistar og væru búnir að misnota hana lengi og hún hafi verið búin að gefast upp. Hún sagði að eftir að hún hafði hlustað á mig hafi hún ákveðið að velja lífið og gleðina. Ég á eitt líf og ef ég get gert eitt líf betra þá er ég búin að gera nóg í mínu lífi. En það er ótrúlegt að geta breytt svona mörgum lífum. Og það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir gleði. Ef ég get breytt heiminum pinkulítið í að verða betri og ég hjálpa einhverjum til að verða betri þá hjálpa þeir öðrum og svo framvegis. Og hægt og rólega verður þessi heimur betri.“



Á meðal verkefna Bjargar er einnig framleiðsla á freyðivíni sem hún kallar Hamingjubúbblur og er það hennar eigin uppskrift. Um er að ræða lífrænt freyðivín sem er orðið það vinsælasta í Noregi og kallast þar Lykkebobler. Þrúgurnar eru framleiddar í Castillo Perelada sem er rétt fyrir utan Barcelona. Og Björg hannaði svo flöskumiðana sem eru eins og listaverk.

„Það voru fáir sem trúðu á mig þegar ég byrjaði með freyðivínið en núna er ég svo stolt af því að þetta er mest selda freyðivínið í Noregi. Ég sel um 400.000 lítra á ári þannig að þú getur ímyndað þér hvað það verða margir fullir út af mér,“ segir Björg og hlær. „En það er líka af því að vínið er ódýrt miðað við gæði.“

Fyrir utan fallega hvítmálaða húsið sem skreytt er að framan með mósaíklistaverkum á Björg auk þess húsið uppi í fjöllum eins og þegar hefur komið fram. „Ég elska að vera þar. Ég keypti það til að hafa stað til að mála og hafa kyrrð. Þar sem ég er með ADHD er gott að vera þar sem er kyrrð og ég er búin að vera þar mikið.“ Þess má geta að Björg er búin að stofna fyrirtæki sem býður upp á ferðir og dvöl í gömlum bóndabæjum í Noregi. Og þar getur fólk kynnst lífsháttum norskra bænda í gegnum tíðina.

Björg Þórhallsdóttir

Passa upp á hvert annað

Þegar Björg er spurð um framtíðardraumana segist hún vera að lifa drauminn. „Það stærsta er að sonur minn verði hamingjusamur og hann er voðalega hamingjusamur og ánægður með lífið,“ segir hún en Tolli er að læra frumkvöðlafræði í London og er núna í skiptinámi í Ástralíu. „Hann er ótrúlega fínn og góður strákur og passar voðalega vel upp á vinina sína. Svo er hann rosalega myndarlegur.“

„Maður skapar sitt eigið líf og sína eigin gleði“

Hvað hefur Björg lært af þeim áföllum sem hún hefur sjálf gengið í gegnum sem og því að hjálpa öðrum?

„Ég hef lært að maður skapar sitt eigið líf og sína eigin gleði, að maður getur ekki kennt öðrum um ef manni líður ekki vel og að allir fara í gegnum erfiða hluti. Ég er búin að ganga í gegnum helling en fólk veit af því af því að ég segi frá því. Það eru rosalega margir búnir að ganga í gegnum miklu verri hluti en ég. Þess vegna hugsa ég að það er mikið atriði að passa upp á sjálfan sig, vinna úr gömlum sárum og ákveða að búa sér til hamingjusamt líf af því að af hverju ættum við að vera í þessu lífi ef það er bara erfitt og ekki gaman? Það sem gefur mér mesta gleði er að gleðja aðra og hjálpa fólki.

Heimurinn er dimmur núna og við þurfum að senda út extra mikið ljós og ást og aldrei hætta að trúa á það góða í fólki. Það er til gott fólk alls staðar og það er miklu meira af góðu fólki en vondu fólki. Og það þarf að passa upp á hvert annað. Við þurfum það meira en nokkurn tímann.

Það eina sem ég vil gera síðustu þrjátíu árin sem ég lifi er að gera heiminn aðeins betri og ég er alveg á fullu. Ég ætla að gera allt sem ég get þessi ár.“

Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skrá inn til að kjósa

Styrkja Mannlíf

Má bjóða þér að styrkja starfsemi Mannlífs með mánaðarlegu framlagi?


Komment

Lokað fyrir bílaumferð í Fossvogskirkjugarði á aðfangadag
Innlent

Lokað fyrir bílaumferð í Fossvogskirkjugarði á aðfangadag

Slysahætta er uppgefin ástæða að sögn lögreglu
Hlynur nefbraut mann á hárgreiðslustofu
Innlent

Hlynur nefbraut mann á hárgreiðslustofu

Baba Vanga spáir vitundarvakningu árið 2026
Heimur

Baba Vanga spáir vitundarvakningu árið 2026

Seiðmagnaðir Jülevenner-tónleikar Emmsjé Gauta
Myndir
Menning

Seiðmagnaðir Jülevenner-tónleikar Emmsjé Gauta

Kópavogsbúi dæmdur fyrir stórfurðulegt vopnasafn
Innlent

Kópavogsbúi dæmdur fyrir stórfurðulegt vopnasafn

Bresk fjölskylda reyndi að koma látinni konu í flug
Heimur

Bresk fjölskylda reyndi að koma látinni konu í flug

Eru komnar með nóg af Helga Björns
Fólk

Eru komnar með nóg af Helga Björns

Yfirfærir hneykslismál Útlendingastofnunar á aðrar stofnanir
Innlent

Yfirfærir hneykslismál Útlendingastofnunar á aðrar stofnanir

Glæpamaður reyndi að hlaupa undan lögreglunni
Innlent

Glæpamaður reyndi að hlaupa undan lögreglunni

„Ég vil byggja eitthvað sem Ísland getur verið stolt af“
Viðtal
Fólk

„Ég vil byggja eitthvað sem Ísland getur verið stolt af“

„Tvær drottningar sem fæla burt allt jólastressið“
Fólk

„Tvær drottningar sem fæla burt allt jólastressið“

Fólk skammaðist sín
Viðtal
Menning

Fólk skammaðist sín

Menning

Seiðmagnaðir Jülevenner-tónleikar Emmsjé Gauta
Myndir
Menning

Seiðmagnaðir Jülevenner-tónleikar Emmsjé Gauta

Mikil gleði og ánægja ríkti meðal áhorfenda
Reis hátt upp úr röð áfalla og reynir að hjálpa
Menning

Reis hátt upp úr röð áfalla og reynir að hjálpa

Fólk skammaðist sín
Viðtal
Menning

Fólk skammaðist sín

Leyndarmál sem varð að listsýningu
Viðtal
Menning

Leyndarmál sem varð að listsýningu

Stebbi Hilmars segir að það megi lyfta sér upp
Menning

Stebbi Hilmars segir að það megi lyfta sér upp

Loka auglýsingu