
Nú styttist óðum í áramótin og ákvað Mannlíf að heyra í nokkrum frábærum einstaklingum um uppáhaldsáramót þeirra, hvort viðkomandi ætli að strengja áramótaheit og margt fleira
Ebba Sig, leikkona og grínisti, er ein af þeim sem hefur heldur betur upplifað óvenjuleg áramót.
Hver eru þín eftirminnilegustu áramót?
Ég myndi segja að séu þau sem ég eyddi í New Jersey. Ég var að heimsækja vinkonu mína úr leiklistarskóla sem átti fjölskyldu í New York. Við ætluðum að horfa á boltann „droppa“ í Times Square en fréttum að það væri ómögulegt að fara úr mannmergðinni til að fara pissa þannig við ákváðum að fara á mjög skrautlegan bar í New Jersey og mér leið alveg eins og allir í kringum mig væru úr The Jersey Shore. Fyrstu og einu áramótin í öðru landi.
Lumar þú á góðri áramótasögu?
Þetta er framhald af eftirminnilegustu áramótunum því við Devin áttum ferð með rútu klukkan 7 á nýársdag. Það var hraðbanki sem ákvað að éta kortið mitt um áramótin þannig ég var allslaus nema með það sem vinkona mín var með á sér. En þegar við vorum í rútunni var maður sem sagði mér að hann væri ástfanginn af mér. Hann sá gervipelsinn minn sem ég var í um þessi áramót í rútunni, ég var enn í sömu fötum og kvöldið áður. Hann var málglaður og hélt að ég væri pelsasjúk. Hann sagði mér að hann ætti „a million dollars“ og að ég gæti orðið nýja konan hans. Ég heyrði að maðurinn var með svona rússnenskan hreim og ég hló og sagði í alvöru „Hvar myndum við búa?“ og hann sagði hjá JFK því það væri besti vinur hans. Þegar ég sagði honum að JFK væri dáinn sagði hann að það skpti ekki máli því hann ætti fimm kreditkort, en við Devin sáum að þetta voru allt lyklar inná mismunandi hótelherbergi. Þegr ég ætlaði að segja honum að ég væri góð en takk fyrir gott boð þá var Devin að láta reka hann út úr rútunni. Þannig að við hlógum frá Atlantic City til Boston.
Ætlar þú að strengja áramótaheit?
Úff nei. Ég finn bara að ég er alltaf að fara vera nákvæmlega sama kona og ég hef alltaf verið hvort sem ég strengi áramótaheit. Ég þarf ekki að strengja nein heit til að reyna að verða betri. Ég ætla að halda áfram með eitt áramótaheit sem ég byrjaði á og það var að byrja með hlaðvarp með mömmu minni og það hefur gengið.
Hefur þú gert það áður?
Ég hef strengt svo mörg. Alltof mörg. Verða mjó, verða fræg leikkona, verða góð við alla sem á vegi mínum verða, vera vegan. Ég hef nú alveg tekið nokkrum sinnum þátt í veganúar en ég ætla að hafa það bara kjötlausan janúar í ár því ég elska ost of mikið. Svo ætla ég að vera með fleirir uppistönd og halda áfram með hlaðvarpið Mæðgurnar með mömmu minni og Stefáni Ingvari sem framleiðanda því það gefur mér svo mikla gleði að gera eitthvað með mömmu minni. Hún er besta kona sem finnst.
Hvað ætlar þú að gera um næstu áramót?
Ég og Óli, sambýlismaðurinn minn, ásamt hundinum okkar Snúllu ætlum að vera heima á Snorrabraut að borða innfluttan humar og drekka freyðivín. Ég elska að horfa á skaupið og horfa svo á flugeldanna útum gluggann, en þetta árið ætlum við að fara hjá Hallgrímskirkju og ég ætla að vera með blys og syngja Happy New Year með Abba.

Komment