Á Arnarnesi í Garðabæ er komið á sölu glæsilegt og mikið endurnýjað 233,9 fm einbýlishús á einni hæð við Hegranes 5, hannað af Pálmari Ólasyni arkitekt. En Hegranes er þekkt sem gata þar sem einstaklega margir framkvæmdastjórar hafa átt heima í gegnum tíðina.
Húsið stendur á gróinni og skjólgóðri lóð og býður upp á afar vandað skipulag, mikla möguleika og notalegt umhverfi fyrir fjölskyldur.
Komið er inn í forstofu með flísum á gólfi og fatahengi. Eldhúsið er staðsett í miðju hússins og er með nýlegri, sérsmíðaðri innréttingu frá Birninum, sem fellur vel að opnu og björtu rými heimilisins.
Svefnherbergin eru fjögur. Þrjú þeirra eru á hefðbundnum svefnherbergisgangi. Út frá rúmgóðu hjónaherbergi er möguleiki á að skipta út glugga fyrir hurð með beinu útgengi á pall; allar lagnir eru til staðar fyrir heitan pott. Fjórða herbergið er forstofuherbergi með góðu aðgengi að gestasnyrtingu og hentar vel sem unglingaherbergi, gestaherbergi eða fyrir Au-pair.
Sólskáli hússins er bjartur og notalegur, með ljósum flísum á gólfi og arni. Úr sólskála er gengið út á stóran og skjólgóðan sólpall, sem tengist vel grónum og vel hirtum garði.
Baðherbergi hússins hefur nýlega verið endurnýjað og er flísalagt í hlýjum grátónum, með innbyggðri sturtu og upphengdu salerni. Gestasnyrting er með flísum á gólfi, upphengdu klósetti og handlaug. Þvottahús er rúmgott, með tengjum fyrir þvottavél og þurrkara, góðu innréttingarrými og útgengi á bílaplan.
Eigendurnir vilja fá 209.900.000 fyrir húsið.


Komment