Við Stóriteig 36 er að finna glæsilegt og afar vel skipulagt einbýlishús á einni hæð sem hentar jafnt fjölskyldum sem þeim sem vilja rúmgott og þægilegt heimili og er það til sölu.
Húsið býður upp á þrjú til fjögur svefnherbergi og hefur verið hannað með áherslu á bjart rými, gott flæði og vandaðar innréttingar.
Við inngang tekur á móti rúmgóð forstofa og eru herbergi staðsett sitt hvoru megin við hana. Borðstofa, stofa og eldhús mynda opið og samhliggjandi alrými sem nýtur mikillar birtu og hentar vel fyrir daglegt líf sem og samveru. Eldhúsið er með góðu vinnuplássi, stórri frístandandi eyju og svartri granítborðplötu sem setur sterkan og fágaðan svip á rýmið.
Í húsinu hefur verið gerð breyting þar sem 31 fm rými, áður skráð sem sólstofa, hefur verið breytt í íbúðarrými. Það býður upp á fjölbreytta nýtingarmöguleika, hvort sem er sem stofa, sjónvarpsherbergi eða rúmgott svefnherbergi.
Gangur liggur að hjónasvítu sem er með rúmgóðu fataherbergi og er aðalbaðherbergi staðsett við enda gangsins. Auk þess er þvottahús með salerni og góðum fataskápum, staðsett við lítið hol inn af eldhúsi.
Innangengt er í bílskúr úr sjónvarpsherbergi og þaðan einnig út á pall, sem eykur þægindi og tengingu við útisvæði. Allar innréttingar og skápar eru í samræmdum stíl og er svart granít einnig notað á baðherbergi og í gluggakistum, sem undirstrikar gæði og heildaryfirbragð eignarinnar.
Eigendur hússins vilja fá 149.900.000 fyrir það.


Komment