
Íþróttafélagið Víkingur Reykjavíkur hefur greint frá því að félagið hafi tekið þá ákvörðun um að nýtt svæði þeirra í Safamýri muni bera nafnið Virkið. Félagið fékk svæðið í hendurnar eftir að Fram flutti í Úlfarsárdal en svæðið í Safamýri var áður í umsjón Fram.
Stefán Pálsson, sagnfræðingurinn og gallharður Framari, telur þetta vera merki um minnimáttarkennd Víkings gagnvart fram.
„Æ, það er hjartahlýjandi og uppörvandi fyrir okkur Framara að sjá að þrátt fyrir alla velgengni síðustu ára skuli Víkingarnir ennþá vera með minnimáttakennd gagnvart stóra bróður. Hins vegar veit ég ekki alveg með skynsemina í nafnavalinu,“ skrifar sagnfræðingurinn geðþekki á samfélagsmiðla.
„Það er stundum vandamál að reka íþróttafélag á tveimur stöðum. Aðalstjórn Víkings finnst greinilega að „Víkin“ og „Virkið“ séu tvö afgerandi eðlisólík nöfn, en ég er ekki viss um að ringlaðir helgarpabbar, afar og ömmur á leið með gríslingana á íþróttaskóla eða foreldrar barna í öðrum félögum að mæta á handboltamót sjái þennan augljósa mun,“ heldur Stefán áfram.
„Hefði ekki verið auðveldara að kaupa ennþá stærra skilti eða mála gervigrasið svart og rauðröndótt?“ spyr hann í lokin.

Komment