Við Lambastaðabraut 4 á Seltjarnarnesi er komið á sölu afar glæsilegt og vel við haldið sjö herbergja einbýlishús á tveimur hæðum auk kjallara.
Húsið er samtals 216 fermetrar að stærð og stendur á stórri eignarlóð við rólega einstefnugötu á suðurströnd nesins, með fallegu sjávarútsýni.
Um er að ræða timburhús með steyptum kjallara og samliggjandi bílskúr. Góð aðkoma er að eigninni og umhverfi hennar er afar snyrtilegt. Innfelld lýsing er í stéttum í kringum húsið og lóðin er gróin og vel hirt. Á henni eru tvær timburverandir; önnur við húsið sjálft og hin staðsett fjær, við fánastöng, sem býður upp á notalegt útisvæði.
Eignin ber þess merki að hafa fengið reglulegt og gott viðhald. Húsið var málað að utan árið 2021, gluggar yfirfarnir og gler og póstar endurnýjaðir eftir þörfum. Þakið var einnig yfirfarið. Í kjallara er aukaíbúð sem var endurnýjuð árið 2017. Þá var skipt um alla glugga í kjallara, lagnir, einangrun og dren, auk þess sem nýlega hefur verið skipt um jarðveg og gólfplötu.
Hér er um að ræða einstaklega vel staðsetta eign á eftirsóttum stað á Seltjarnarnesi, sem hentar jafnt stórum fjölskyldum sem þeim sem vilja njóta nálægðar við sjó, náttúru og góða útivist, án þess að fórna nálægð við miðborgina.
Eigendurnir vilja fá 221.900.000 fyrir húsið.


Komment