
Lögregla hafði í nógu að snúast í gær og í nótt þegar fjöldi mála kom til kasta hennar, þar á meðal innbrot, fíkniefnamál, eignaspjöll og umferðarlagabrot.
Karlmaður var handtekinn, grunaður um fjölda innbrota, og vistaður í fangaklefa. Í öðru tilviki veitti lögregla manni eftirför á fæti þegar hann reyndi að komast undan afskiptum hennar. Hann náðist fljótt og var handtekinn grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna, peningaþvætti, að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu og ýmis brot gegn útlendingalögum, meðal annars að framvísa ekki lögmætum skilríkjum og upplýsa ekki um tilgang dvalar.
Þá var tilkynnt um þjófnað í matvöruverslun og var málið afgreitt á vettvangi. Kona var einnig kærð fyrir að aka bifreið svipt ökurétti.
Lögreglu barst tilkynning um mann sem var að valda eignaspjöllum á bifreiðum. Þegar lögreglumenn komu á vettvang reyndi hann að kasta stóru grjóti í lögreglubifreið og flúði á fæti. Hann var eltur uppi og handtekinn, grunaður um eignaspjöll, brot á lögreglusamþykkt og að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu, og vistaður í fangaklefa þar til hann kemst í skýrsluhæft ástand.
Annar maður var handtekinn og vistaður í fangaklefa í þágu almannafriðar og allsherjarreglu eftir að hafa verið til ama á almannafæri. Honum hafði áður verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt en nýtti ekki það tækifæri.
Umferðareftirlit leiddi einnig í ljós alvarleg brot. Maður var handtekinn grunaður um að hafa ekið á 134 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Hann var undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökurétti og reyndi auk þess að blekkja lögreglu með skilríkjum annars manns. Átta aðrir ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur, meðal annars fyrir að aka á 122, 117 og 106 km/klst þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Einn þeirra hafði aldrei öðlast ökuréttindi.
Tilkynnt var um rúðubrot og er það mál nú til rannsóknar. Þá var annar ökumaður kærður fyrir að aka án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Loks voru skráningarmerki fjarlægð af fjölda bifreiða þar sem eigendur höfðu ekki staðið skil á lögboðinni vátryggingu.

Komment