
Unglingspiltur hefur játað að hafa orðið 12 ára dreng að bana með hnífstungu í Birmingham í fyrra.
Pilturinn, sem er 15 ára en má ekki nafngreina í bresku pressunni af lagalegum ástæðum, játaði fyrir dómi að hafa myrt Leo Ross með því að stinga hann í magann á leið hans heim úr skóla í Birmingham 21. janúar 2025. Árásin átti sér stað á stíg við árbakka í Shire Country Park í Hall Green. Vegfarendur komu Leo til aðstoðar og kölluðu á sjúkrabíl, en hann lést af sárum sínum á sjúkrahúsi um klukkan 19:30 sama dag.
Leo, sem var nemandi við Christ Church C of E Secondary Academy, er talinn yngsta fórnarlamb hnífaofbeldis í West Midlands-héraði. Fjölskylda hans sagði að hann hefði verið á um tíu mínútna gönguleið heim þegar árásin átti sér stað og lýsti honum sem „ótrúlega góðum, hlýjum og elskulegum“ dreng. „Ekki aðeins var líf Leo tekið, heldur líf okkar allra,“ sagði fjölskyldan jafnframt.
Gerandinn var 14 ára þegar brotið var framið. Hann játaði sekt sína fyrir Birmingham Crown Court í dag. Auk morðsins játaði hann einnig tvö tilvik alvarlegrar líkamsárásar með ásetningi og eitt tilvik líkamsárásar í tengslum við fyrri árásir á aðra þolendur, auk þess að hafa borið hníf daginn sem Leo var myrtur. Hann neitaði öðrum ákæruliðum, sem voru lagðir til hliðar.
Lögregla staðfesti síðar að hnífnum hefði verið hent í nærliggjandi á. Einnig kom í ljós að pilturinn dvaldi á vettvangi og ræddi við lögreglu, þar sem hann sagðist ranglega hafa fundið Leo slasaðan við ána. Rannsókn leiddi enn fremur í ljós að hann hafði, hjólandi, ráðist á nokkrar konur í almenningsgörðum á svæðinu fyrr sama dag. Leo hafði engin tengsl við árásarmanninn og telja lögregluyfirvöld árásina hafa verið tilviljunarkennda og algerlega tilefnislausa.
Dómarinn, Paul Farrer KC, sagði að refsing yrði ákveðin 10. febrúar og að dómþingið gæti staðið allan daginn. Þar til þá verður pilturinn vistaður í ungmennavistun.
Í yfirlýsingu fjölskyldunnar eftir andlátið sagði meðal annars: „Leo verður sárt saknað. Hann var elskaður af öllum.“ Skólinn hélt nýlega lokaða minningarathöfn þar sem nemendum var gefið tækifæri til að minnast Leo saman.

Komment