
Ég þarf að segja ykkur örlitla sögu sem útskýrir mjög margt af því sem gerist bak við tjöldin á Alþingi - og er nauðsynlegt til þess að fólk skilji innanhúsbaráttuna í pólitíkinni. Það er að segja, baráttu flokka bak við tjöldin á Alþingi.
Þinglokasamningar
Áður en þing fer í hlé þá semja flokkarnir á Alþingi oft sín á milli um hvaða mál eigi að klára fyrir hléið. Hvaða mál eigi að fara til nefndar og í umsagnarferli, hvaða málum er stungið í skúffuna í bili, hvaða mál eru afgreidd úr nefnd, í umræðu og í atkvæðagreiðslu. Ástæðan fyrir þessum samningum er að oft eru mál sem stjórnarandstöðunni finnst vera slæm og vill breytingar á eða að afgreiðslu verði frestað. Einnig vill stjórnarandstaðan oft fá einhver af sínum málum í atkvæðagreiðslu - og ef það verður ekki hlustað að þá getur stjórnarandstaðan ákveðið að nota ræðustól Alþingis til þess að útskýra fyrir öllum sem vilja hlusta hversu ómálefnalegir ríkisstjórnarflokkarnir eru.
Það getur svo auðvitað verið rétt eða rangt, að ríkisstjórnarflokkarnir séu ómálefnalegir. Það getur verið rétt eða rangt hvort málin sem stjórnarandstaðan vill stoppa séu góð fyrir samfélagið. Það getur alveg verið þannig að stjórnarandstaðan sé ómálefnalegi aðilinn. Það er mjög erfitt að gera sér grein fyrir því utan frá.
Eitt sem fólk þarf að skilja er að ríkisstjórnarflokkarnir vilja ekkert stjórnarandstöðumál í atkvæðagreiðslu. Fyrir því eru nokkrar ástæður. Þeim finnst þau mál oft ekki hafa fengið nægilega góða rýni hjá fagaðilum (ráðuneytum) - þar sem það geta alveg verið lögfræðilegar flækjur í sumum málum. Það er ekki endilega kostnaðarmat á bak við stjórnarandstöðumál heldur. Og svo hafa ríkisstjórnarflokkarnir bara engan áhuga á því að einhverjir stjórnarandstöðuflokkar geti montað sig af einhverjum góðum málum. Það var til dæmis mjög sárt fyrir fyrri ríkisstjórn að hafa hleypt niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu frá Viðreisn í gegnum þingið. Það var ekki lítið minnt á það og skort á fjármögnun því tengdu í kjölfar þess að þau lög voru samþykkt, ríkisstjórninni til mikilla ama.
Ég sagði þeim að koma ekki
Það er í þessum aðstæðum sem þessi litla saga gerist. Það er búið að semja og það var bara formsatriði að klára nefndarstörf og þingstörf. Mæta og greiða atkvæði.
Það var einn fundur eftir í nefnd þar sem átti að taka á móti gestum í einu máli Pírata sem átti svo að taka út og afgreiða í þinginu. Ég mætti á fundinn í afleysingu og var að búast við gestum í málinu okkar. Þegar ég kom inn á nefndarsvið nokkrum mínútum fyrir fund þá sá ég hins vegar enga gesti. Þeir eru venjulega mættir tímanlega. Þegar ég skrapp fram að ná mér í smá kakó rétt áður en fundurinn byrjaði þá voru heldur engir gestir komnir.
Fundur var svo settur og mál fundarins tekin á dagskrá. Fundargerð síðasta fundar. Samþykkt. Mál okkar Pírata … nefndarformaður tilkynnir þá nefndinni að hún hafi hringt í gestina fyrr um morguninn og sagt þeim að þeir þyrftu ekki að mæta.
Ég varð pínulítið forviða á því og spurði af hverju - en svörin voru ekkert flóknari en það að nefndarformaður ákvað það bara sjálf að afboða gestina. Það þýddi að gestakomum var ekki lokið og málið þar af leiðandi ekki afgreitt úr nefnd og þingið fór í hlé í það skiptið án þess að málið væri klárað.
Þetta var hið fínasta mál, enda var það klárað seinna.
Yfirgangur í beitingu dagskrárvalds
Fólk utan þings sér yfirleitt ekki svona loftfimleika með dagskrárvaldið sem er svo oft ástæðan fyrir því að stjórnarandstaðan gerir sér ferð upp í ræðustól þingsins til þess að kvarta undan fundarstjórn forseta. Ég vona að þetta litla dæmi gefi fólki smá innsýn í að starfið inni á þingi, bak við tjöldin, er stundum mjög ómálefnalegt - hjá öllum. Ekki bara hjá “andstæðingum” þíns flokks.
Fólk verður að skilja að þeirra flokkur beitir líka óheiðarlegum og ómálefnalegum aðferðum í þessu baktjaldastríði sem við fáum stundum smávægilega innsýn í þegar rætt er um fundarstjórn forseta. Persónulega man ég ekki eftir slíku tilfelli hjá Pírötum, svo ég horfi nú aðeins inn á við, í versta falli gerðum við kannski meira úr einhverjum málum sem voru frekar minniháttar. Yfirleitt gerðist það bara þegar við vissum að það átti við þann aðila eða flokk sem var gagnrýndur. Þótt okkur finndist málið kannski ekkert alvarlegt, þá vissum við að sá sem var gagnrýndur fannst málið alvarlegt.
Eitt dæmið um það er bann við mentol bragði í sígarettum. Persónulega er mér slétt sama en er samt á þeirri skoðun að fólk geti bara haft þetta eins og fólk vill. En ég hef enga persónulega þörf fyrir því að sinna varnarbaráttu fyrir tóbakið þeirra. Ég gerði það samt í þessu tilfelli af því að ég vissi að Sjálfstæðisflokknum fannst þetta bann óþægilegt. Ég minntist á þetta af því að mér fannst áhugavert að sjá Sjalla engjast um í frelsistauginni sinni - svo það væri extra óþægilegt fyrir þau að samþykkja þetta bann. Sem þau svo gerðu með smá auka frestun á gildistöku.
Var þetta ómálefnalegt hjá mér? Mér fannst ég vera að sinna sannfæringu minni, sem var nóg fyrir mig. Þetta er allavega eina dæmið sem mér datt í hug að nefna í þessu samhengi fyrir mig persónulega.
Sannfæring þingmanna
Að afboða gesti á fund til þess að koma í veg fyrir afgreiðslu máls, var það ómálefnalegt? Tja, ég ætla að leyfa mér að giska á að það hafi verið innan sannfæringar nefndarformanns. Fólk getur þá bara velt því fyrir sér hvort það er sátt við svona sannfæringu. Þingmenn eru nefnilega bara bundnir sannfæringu sinni, samkvæmt stjórnarskrá og eftir að hafa starfað innan veggja þingsins þá held ég að mörgum myndi bregða ef þau myndu sjá hvernig sannfæring þingmanna er stundum.
Tilgangurinn með þessari sögu er að fá fólk til þess að skilja að utan frá er nær ómögulegt að sjá hver er að segja satt og hver ekki. Stjórnin lýgur stundum. Stjórnarandstaðan lýgur stundum. Á sama tíma skynja ég það að fólk vill almennt að þingið starfi á heiðarlegan hátt samfélaginu öllu til heilla. Það er hins vegar ekki það sem gerist af því að á bak við þetta allt saman eru peningalegir hagsmunir sem eru misvel varðir af fulltrúum viðkomandi hagsmuna - og ef heiðarleg og sanngjörn rök virka ekki þá er ekki hikað við að beita ómálefnalegum aðferðum. Lögfræðiálit eru skálduð. Smjörklípur eru notaðar. Strámenn eru reistir. Auglýsingar keyptar. Njósnir stundaðar.
Og þetta virkar alla jafna vegna þess að framsetning sigrar innihald. Ef það er eitthvað sem ég lærði meira en nokkuð annað á þessum árum mínum á þingi er að það skiptir ekki máli hvað þú segir og hver gögnin eru - það skiptir meira máli að greina frá skoðunum þínum með sannfæringarkrafti. Segðu það með innlifun og fólk trúir þér. Sýndu þeim gögnin og enginn nennir að hlusta.
Eða afboðaðu bara gestina til þess að drepa málið.
Komment