
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir að taka son sinn hálstaki með báðum höndum og þrýst honum upp við borð.
Árásin er sögð hafa átt sér stað 31. desember 2023 en þá var drengurinn rúmlega 16 ára gamall. Voru afleiðingar árásar ákærða þær að sonurinn hlaut yfirborðskennda áverka á hálsi, þ.e. roða og húðbólgu hægra megin á hálsi, ásamt verki í kvið. Telst háttsemi þessi varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, auk 98. gr. og 1. mgr. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Það er lögreglustjórinn á Suðurnesjum sem gefur út ákæruna en atvikið átti sér stað á heimili þeirra í Reykjanesbæ.
Sonurinn fer fram á að faðirinn greiði 1.500.000 krónur í skaða- og miskabætur, með vöxtum.
Málið verður tekið fyrir þann 10. mars næstkomandi í Héraðsdómi Reykjaness.
Komment