
Nýjasta dagbókarfærsla Önnu Kristjánsdóttur birtist á Facebook í morgun. Þar játar hún það sem hún kallar „hræðilega synd en hún hefur horft óvenjumikið á knattspyrnu undanfarið.
Vélstjórinn og húmoristinn Anna Kristjánsdóttir skrifar afar vinsælar dagbókarfærslur frá Tenerife en í þeirri nýjustu talar hún meðal annars um knattspyrnuáhorf og æskuminningar.
„Dagur 2197 – Fótboltakvöld.
Ég játa hræðilega synd mína. Ég er búin að horfa á fótbolta í sjónvarpinu þrjú kvöld í röð. Fyrst var það uppáhaldslið þeirra Péturs og Þórðar í enska boltanum sem vann eitthvað annað lið sem ég man ekkert hvert var. Á laugardagskvöldið þurfti ég að horfa á uppáhaldsliðið hans Böðvars sonar Stefáns Pálssonar vinar míns bursta eitthvað annað lið sem settu þau í efsta sæti peningadeildar enska boltans.” Þannig hefst færsla Önnu, sem eins og venjulega, er löðrandi í húmor. Og fótboltaglápinu var ekki lokið:
„Á sunnudag grét ég yfir sigri liðins þeirra Bimbó og Grétars sem rétt náði að merja sigur á uppáhaldsliði þeirra Nenna og Ásgeirs. En svona er fótboltinn. Það eru víst mörkin sem telja.
Sjálf læt ég mér þessi úrslit í léttu rúmi liggja. Öllu verri voru úrslit laugardagsins þegar hetjurnar okkar í Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps töpuðu fyrir einhverjum nobodys og sitja nú kyrfilega á botni fimmtu deildar enska boltans eftir tvær umferðir.
Það gengur bara betur næst.”
Því næst snýr Anna sér að vinkonu sinni sem hún hitti í gærkvöldi en þær rifjuðu um misgóðar minningar, eins og gengur og gerist.
„Við Margrét hittumst aðeins á Babylon á sunnudagskvöldi og áttum gott spjall saman, ræddum gamlar minningar góðar og slæmar eftur atvikum og játuðum gamlar syndir frá barnæsku, frá uppeldi sem þó þótti ásættanlegt í þá daga en ekki lengur. Hún sagði frá æskuheimili móður sinnar og frá vinkonu sinni sem ólst upp í Bjarnaborg við Hverfisgötu í Reykjavík og ég bætti um betur með upprifjun af minni bernsku í Höfðaborginni.”
Anna segist hafa rifjað þessar minningar upp áður í ævisögu sinni og það sé nóg, hún horfi ekki til baka með stjörnur í augunum.
„Sjálf hefi ég rifjað upp minningarnar í ævisögu minni og þarf vart að rifja upp aftur. Þó að sumir sjái bernskuminningarnar í hillingum gildir það ekki um mig sem öfundaði fólkið sem bjó í steinhúsum.”
Hér fyrir neðan má lesa færslu Önnu í heild sinni.
Komment