
Böðvar Tandri Reynisson næringarfræðingur og þjálfari segir líf sitt hafa breyst eftir að hann fór í heilaaðgerð í kjölfar óvæntrar atburðarrásar þar sem í ljós kom að hann var með heilaæxli. Böðvar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, hefur vakið talsverða athygli á samfélagsmiðlum, þar sem hann talar meðal annars um næringu og heilsu.
„Þennan dag var ég í trampólíngarðinum Rush í Kópavogi með fyrrverandi kærustunni minni. Allt í einu var ég bara stjarfur og mundi ekki neitt og varð bara mjög skrýtinn. Það var eins og ég hefði aldrei séð umhverfið mitt áður og vissi ekki hvar ég var, eða hvaða dagur var. Hún hélt að ég hefði fengið vægan heilahristing, en svo hélt ég bara áfram að endurtaka mig og verða skrýtnari og skrýtnari. Á leiðinni út vissi ég ekkert hvar skórnir væru eða útgangurinn og það var bara eins og ég myndi ekki neitt. Í bílnum endurtók ég sömu hlutina aftur og aftur, en mundi ekki að ég hafði sagt þá 1-2 mínútum áður. Þetta gerðist örugglega sjö sinnum í þessari sömu bílferð. Að ég talaði um hluti sem ég var að tala um, en mundi ekki að ég hafði sagt þá rétt áður.“
Sendur í heilaaðgerð með dags fyrirvara
Eftir að Böðvar kom heim til fjölskyldu sinnar var ákveðið að fara með Böðvar upp á sjúkrahús. Þar kom í ljós að eitthvað amaði að og fyrst töldu læknarnir að hann væri að upplifa tímabundið skammtímaminnisleysi.
„Það átti að senda mig heim og mér var sagt að það væri í raun ekkert hægt að gera annað en að bíða þetta af sér og að yfirleitt lagaðist þetta af sjálfu sér. En annaðhvort pabbi eða fyrrverandi kærastan mín þekktu konuna sem var þarna með okkur og báðu um að það yrði tekin mynd af heilanum í mér og það var ákveðið að gera það. Í segulómskoðuninni kom í ljós að það var hnútur í heilanum á mér. Það er sem sagt hólf í höfðinu á mér þar sem mænuvökvi kemur inn og hann á að komast út úr hólfinu líka. Það er svona hnútur eða góðkynja æxli í heilanum á mér sem var að þrýsta á rörið þar sem vökvinn á að komast úr hólfinu. Þannig að hólfið var orðið fáránlega stórt. Það var orðinn svo mikill þrýstingur á sjóntaugina að ég hefði hæglega getað orðið blindur ef það hefði ekki verið gripið inn i þarna strax. Ef ég hefði farið heim og ekki í þessa myndatöku er allt eins líklegt að ég hefði ekki sjónina í dag. En þarna var mér bara sagt að ég væri að fara í heilaaðgerð strax daginn eftir,“ segir Böðvar og heldur áfram.
Þakklátur fyrir lífið
„Mér var sem sagt greint frá því að það þyrfti að búa til hjáleið til þess að minnka þrýstinginn í höfðinu og það var ákveðið áfall að átta mig á því að ég væri að fara í heilaskurðaðgerð. Bæði af því að það er mikið inngrip og svo kemur bara ótti yfir því að það eigi að fara að krukka í heilanum á manni. Ég var látinn skrifa undir eitthvað plagg um að ég bæri ábyrgð á því sjálfur ef eitthvað kæmi fyrir og auðvitað fer maður að hugsa það versta. En sem betur fer fór þetta allt vel, þó að tíminn á eftir hafi verið erfiður. Ég mátti ekkert reyna á mig í vikurnar á eftir, en ég fann svo mikið þakklæti yfir því að vera lifandi, hafa sjón og að líkami minn gæti jafnað sig,“ segir einkaþjálfarinn og tekur fram að hann sé mjög þakklátur.
„Ég fékk algjörlega nýja sýn á það hvað hlutirnir geta verið brothættir. Það kom bara algjörlega yfir mig að þessi heilsa sem manni er gefin, sem að flestir fá, er bara ótrúlega ósjálfsögð. Hún er alls ekki sjálfsagður hlutur og þarna raunverulega áttaði ég mig á því. Þegar heilsan þín er farin verða öll önnur vandamál svo miklu minni og þú raunverulega áttar þig á því að ef þú átt ekki heilsu, þá áttu ekki neitt og hitt skiptir ekki lengur máli. Það hljómar kannski eins og klisja, en það er gott að minna sig á að lifa lífinu lifandi. Einn daginn þá ertu ekki til, það er bara svoleiðis hjá öllum.“

Komment