
Bandaríkin hafa nú formlega sagt sig úr Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), sem þýðir að stofnunin missir einn stærsta fjárhagslega bakhjarl sinn.
Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, undirritaði forsetatilskipun um úrsögnina fyrir ári síðan, eftir að hafa gagnrýnt stofnunina harðlega og sagt hana hafa verið of „Kína-miðaða“ í viðbrögðum sínum við Covid-19 faraldrinum.
Bandaríska heilbrigðisráðuneytið (HHS) segir ákvörðunina byggða á meintri „vanstjórn“ WHO á heimsfaraldrinum, skorti á umbótavilja og pólitískum afskiptum aðildarríkja. WHO hefur hafnað þessum ásökunum alfarið og sagði framkvæmdastjóri stofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, að brotthvarf Bandaríkjanna væri tap, bæði fyrir Bandaríkin sjálf og heiminn allan.
WHO bendir á mikilvægt hlutverk sitt í alþjóðlegri baráttu gegn mænusótt, HIV/alnæmi, mæðradauða og í innleiðingu alþjóðlegs tóbaksvarnarsamnings. Eftir heimsfaraldurinn var einnig samið um alþjóðlegan farsóttasamning sem miðar að betri viðbúnaði og sanngjarnari dreifingu bóluefna og lyfja. Allar aðildarþjóðir WHO samþykktu samninginn í apríl í fyrra, nema Bandaríkin.
Bandaríkin hafa lengi verið meðal stærstu styrktaraðila WHO en hafa ekki greitt aðildargjöld sín fyrir árin 2024 og 2025. Það hefur þegar leitt til umfangsmikilla uppsagna innan stofnunarinnar. Lögfræðingar WHO telja Bandaríkin skuldbundin til að greiða vangoldin gjöld, sem nema um 260 milljónum dala, en stjórnvöld í Washington hafna því.
Í yfirlýsingu segir að öll bandarísk fjármögnun til WHO hafi verið stöðvuð, bandarískir starfsmenn kallaðir heim frá höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf og samstarf Bandaríkjanna við WHO víða um heim fellt niður.
Í sameiginlegri yfirlýsingu heilbrigðisráðherra Bandaríkjanna, Robert F. Kennedy, og utanríkisráðherrans Marco Rubio segir að WHO hafi „svívirt og eyðilagt allt það sem Bandaríkin hafa lagt til“. Þeir segja stofnunina hafa „yfirgefið kjarnahlutverk sitt og starfað ítrekað gegn hagsmunum Bandaríkjanna“.
WHO sagði á föstudag að brotthvarf Bandaríkjanna yrði til umræðu á næsta stjórnarfundi stofnunarinnar, sem fer fram dagana 2.–7. febrúar, og að brugðist yrði við í samræmi við leiðbeiningar stjórnvalda hennar.

Komment