
Írska MMA-bardagakonan Sinead Kavanagh var handtekin á flugvellinum á Kanarí á mánudaginn, eftir að hún réðst að sögn á tvo fulltrúa Guardia Civil-lögreglunnar um borð í flugvél á leið til Írlands. Þetta kemur fram í frétt Canarias7.
Áhöfn vélarinnar kallaði eftir aðstoð lögreglu þar sem farþeginn sýndi árásargjarna og ógnandi hegðun áður en flugtak hófst. Þegar lögreglumenn gengu um borð til að hafa afskipti af henni, á Kavanagh að hafa veitt mótstöðu og slegið þá ítrekað. Urðu lögreglumennirnir fyrir meiðslum sem reyndust það alvarleg að þeir þurftu að fara í veikindaleyfi.
Eftir nokkurra mínútna átök tókst lögreglu að yfirbuga hana og var hún flutt í varðhald í aðstöðu Guardia Civil í Vecindario, þar sem hún dvaldi yfir nótt.
Kavanagh mætti fyrir dómara í Telde í gær, þriðjudag, og var henni veitt bráðabirgðafrelsi. Hún er nú til rannsóknar grunuð um árás og brot gegn handhöfum opinbers valds.

Komment