
Lögregla sinnti fjölmörgum verkefnum á síðasta sólarhring, þar sem mál tengd þjófnaði, umferðarlagabrotum, fíkniefnum og eldsvoða komu til kasta hennar.
Tilkynningar bárust um stuld á tösku og þjófnað á ferðatöskum, auk innbrots í heimahús. Öll þessi mál eru til rannsóknar. Þá var tilkynnt um umferðaróhapp þar sem ekið var á kyrrstæða bifreið, en engin slys urðu á fólki.
Í umferðareftirliti voru nokkrir ökumenn stöðvaðir. Þar á meðal var ökumaður sem ók gegn rauðu ljósi og reyndist við nánari athugun grunaður um ólöglega sölu áfengis, peningaþvætti, vinnu án leyfis og ólöglega dvöl í landinu. Sá var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Aðrir ökumenn voru grunaðir um akstur án gildra ökuréttinda, akstur undir áhrifum áfengis eða ávana- og fíkniefna, sem og stórfelldan hraðakstur, meðal annars 139 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst. Í flestum tilvikum voru aðilar látnir lausir að lokinni skýrslutöku eða blóðsýnatöku.
Eitt mál varðaði 16 ára ökumann sem ók bifreið án þess að hafa öðlast ökuréttindi. Málið er unnið í samráði við foreldra og barnavernd.
Þá var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna manns sem var undir áhrifum ávana- og fíkniefna og lét ófriðlega. Hann gat ekki gert grein fyrir sér né framvísað skilríkjum og neitaði að gefa upp persónuupplýsingar. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa, meðal annars grunaður um brot á lögum um útlendinga.
Að lokum var tilkynnt um eld í fjölbýlishúsi. Eldurinn var minniháttar en mikill reykur var í íbúðinni. Slökkvilið annaðist slökkvistarf og reykræstingu, en lögregla tók við vettvangi í kjölfarið. Einn var handtekinn á staðnum, grunaður um íkveikju, og er málið til rannsóknar.

Komment