
Breskur karlmaður lést eftir að hafa orðið fyrir stól í slagsmálum þar sem um tíu heimamenn komu við sögu á meðan hann var í fríi á Grænhöfðaeyjum.
Dean Taylor, 25 ára sölumaður frá suðausturhluta Lundúna, lést á leið á sjúkrahús 7. janúar eftir „átök“ í ferðamannabænum Santa Maria á eyjunni Sal. Lögregla hefur handtekið fimm menn í tengslum við andlátið. Samkvæmt lögreglu var Taylor „í ágreiningi við hóp um tíu einstaklinga af grænhöfðeysku þjóðerni“.
Hann var „laminn með stólum“ auk þess sem hann varð fyrir „fjölmörgum höggum og spörkum“ þar sem hann lá á jörðinni meðan á árásinni stóð. Árásarmennirnir „yfirgáfu vettvanginn tafarlaust“, að því er segir í yfirlýsingu lögreglu.
Faðir hans, Alexander Taylor, sem einnig er búsettur í Lundúnum, segir fjölskylduna vera „algerlega niðurbrotna“. Hann segir eiginkonu sína vera „gjörsamlega í rúst“ og að dóttir þeirra sé það einnig
„Tengdabróðir minn, sem er staddur á Grænhöfðaeyjum, hringdi í mig þegar ég var í vinnunni 8. janúar og sagði mér að Dean væri látinn,“ segir hann.
„Þetta var hræðilegt. Ég myndi ekki óska þessu upp á neinn, ekki einu sinni minn versta óvin.“
Lögreglan segir fimm menn, á aldrinum 19 til 35 ára, hafa verið úrskurðaða í gæsluvarðhald í tengslum við málið. Í yfirlýsingu segir að snemma morguns 7. janúar, um klukkan þrjú, hafi orðið ágreiningur milli hóps innlendra og erlendra einstaklinga á göngugötu í Santa Maria, við Calema-pöbbinn, sem leiddi til dauða 25 ára manns. Utanríkisráðuneyti Bretlands staðfesti síðar að Taylor hefði verið breskur ríkisborgari.
„Eftir rannsóknarvinnu og með aðstoð ríkislögreglu voru fimm grunaðir einstaklingar, á aldrinum 19 til 35 ára, handteknir dagana 7. og 8. janúar af rannsóknardeild lögreglunnar á Sal,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.
Alexander Taylor segir son sinn hafa ferðast til Grænhöfðaeyja með þremur skólafélögum 28. desember og að hann hafi átt að snúa heim daginn eftir að hann var drepinn.
„Það hefur verið mikið rætt um Grænhöfðaeyjar undanfarið,“ segir hann. „Þeir vildu bara fara og njóta lífsins.“
Samkvæmt frásögn vina hans hófst atvikið þegar einn strákanna var að tala við konu. Drukkinn maður, sem þekkti konuna, skipti sér af og þegar Dean og vinur hans sáu að verið var að áreita drenginn, gripu þeir inn í til að athuga hvað væri í gangi og vernda hann. Þá magnaðist rifrildið. „Fólk sem var á ferli blandaði sér líka í málið,“ segir faðirinn.
Fjölskyldan segir sig hafa þurft að greiða 8.500 evrur til að flytja lík Dean heim þar sem ferðatrygging hans náði ekki yfir slíkan flutning. Útför hefur enn ekki verið skipulögð þar sem líkið er enn hjá réttarlækni. Alexander varar breska ferðamenn við ferðum til landsins og segir
„Farið varlega ef þið ætlið í frí þangað og hafið augun opin.“

Komment