
Grunur leikur á að einhver hafi brotist inn í eldhús í heimavistarskóla í Stokkhólmi og eitrað matvæli. Nú er talið að slíkt hafi gerst í annað sinn.
Í gær var sendur tölvupóstur til íbúa í heimavist í Östermalm í Stokkhólmi. Í skilaboðunum kom fram að brotist hefði verið inn í eldhús á einni vistinni og að matur hefði verið eitraður.
Nú er grunur um að atvikið hafi endurtekið sig, að því er DN greinir frá.
„Það hefur orðið einhvers konar endurtekning í dag. Við erum á staðnum að rannsaka hvað gerðist,“ segir Ola Österling, talsmaður lögreglunnar, í samtali við blaðið.
Eftir atvikið í dag var öryggið aukið á svæðinu.
Innbrotið komst upp þegar íbúar sáu að hurð hafði verið brotin upp.
„Þá varð nemi var við undarlega lykt,“ segir Marlene Lundkvist, samskiptastjóri nemendaíbúða í Stokkhólmi.
Óljóst er hvaða hvatar liggja að baki grunaðri eitrun og einnig er ekki vitað hvort einhver hafi orðið fyrir skaða.

Komment