
Rithöfundurinn, leikarinn og leikhúsfræðingurinn Halldór Laxness Halldórsson eða Dóri DNA eins og hann er gjarnan kallaður, opinberaði í viðtalsþætti Sigurlaugar M. Jónasdóttur, Segðu mér, á dögunum að hann væri nú að skrifa kvikmyndahandrit að framhaldinu á Svartur á leik en kvikmyndin sló rækilega í gegn þegar hún kom í bíóhús árið 2012 en hún var byggð á samnefndri bók Stefáns Mána.
Dóri DNA, segist líða illa þegar það er ekki brjálað að gera hjá honum og að hann skrifi eitthvað á hverjum degi en þegar Sigurlaug spurði hann í þættinum Segðu mér, á Rás 1, hvað hann væri að skrifa núna, svaraði hann:
„Þetta hljómar náttúrulega eins og ég sé geðveikur, en akkurat núna erum við í endurskrifum á handriti Svartu á leik framhaldi, sem ég hef verið í í nokkur ár. Og ég er að skrifa bók sem heitir Gervigras, eða það er vinnutitillinn og er saga úr afreksmennsku fótbolta og knattspyrnu og hefur svona sanna undirheimatengingu sem er saga sem mér var trúað fyrir og tryllti mig svolítið.“ Og Dóri er alls ekki búinn með upptalninguna: „Og ég er að leggja drög að ævisögu Jóns Páls Sigmarssonar fyrir kvikmynd. Ég er að skrifa tvær bíómyndir með Hafsteini Gunnari Sigurðssyni, samstarfsmanni mínum. Og við erum eiginlega búnir með eitt handritið og hitt er á byrjunarreit. Ég er að skrifa sjónvarpsseríu sem er byggð á bók Óskars Magnússonar, Verjandinn. Ég var að taka að mér að skrifa aðra sjónvarpsseríu og það eina sem situr á hakanum er kannski það að ég er með hugmynd að tveimur leikritum sem mig langar ofboðslega að skrifa.“
Sigurlaug spyr Dóra hvort honum líði vel að vera með hnút í maganum en Dóri svarar að bragði: „Nei, ég er með hnút í maganum ef það er ekki mikið að gera.“

Komment