
Áhrifavaldurinn og rithöfundurinn Linda Benediktsdóttir, betur þekkt sem Linda Ben, ákvað að skella sér til Parísar í vikuferð með eiginmanninum. Um sannkallaða draumaferð var að ræða.
„Í fyrsta skipti í París og ég var ekki viss við hverju ég ætti að búast. Hef heyrt svo marga lofsama þessa borg og var alveg undirbúin fyrir það að hún myndi ekki standast væntingar,“ skrifar Linda á samfélagsmiðlum um ferðina. Veikindi áttu hins vegar eftir að setja strik í reikninginn.
„Ég hef aldrei verið jafn kvefuð og akkúrat þegar ég var í París. Kinnholubólga, eyrnabólga, rifin hljóðhimna, sýklalyf og fleiri snítipappírar en ég gæti nokkurntíma talið.“
Hún segir að þetta hafi litað ferðina þeirra hjóna enda þau reyndu að láta það ekki skemma ferðina. „Við vorum búin að bóka fullt af veitingastöðum sem við enduðum á að afbóka þar sem við fýluðum einfaldlega best að borða á litlum ekta frönskum bistróum,“ heldur Linda áfram.
„Það var ótrúlega yndislegt að fá að upplifa París svona í rólegheitunum. Hvert sem maður fór var eitthvað fallegt til að horfa, allar byggingarnar, gróðurinn, verslanir og fjölbreytta mannlífið. Je t’aime Paris,“ skrifar hún svo að lokum.



Komment