Á einstökum sjávarreit, innst í rólegri botnlangagötu þar sem náttúran fær að njóta sín, stendur glæsilegt arkitektateiknað einbýlishús með óhindrað útsýni til sjávar og er það til sölu.
Um er að ræða Skeljatanga 9 eftir arkitektinn Hjörleif Stefánsson þar sem áhersla er lögð á samspil byggingar, landslags og umhverfis.
Heildarskráning eignarinnar er 508 fermetrar samkvæmt Þjóðskrá Íslands, þar af er rúmgóður bílskúr 66,6 fermetrar. Húsið stendur á 1.258 fermetra eignarlóð sem liggur að sjó og býður upp á skjólgott útisvæði með einstöku útsýni yfir hafið – aðstæður sem eru sjaldgæfar og eftirsóttar.
Í húsinu eru fjögur rúmgóð svefnherbergi og fjögur baðherbergi, sem gerir eignina einstaklega vel fallna bæði fyrir fjölskyldulíf og móttöku gesta. Skipulag og hönnun bera skýran svip arkitektsins, þar sem birtuflæði, rými og tenging við náttúruna eru í fyrirrúmi.
Eignin var byggð hrunárið mikla 2008, en stendur í dag sem tímalaus og vönduð heild á einum eftirsóttasta stað sem völ er á. Um er að ræða einkar sjaldgæfa fasteign á markaði og er hún einungis sýnd samkvæmt samkomulagi í einkaskoðun.
Eigendur þess óska eftir tilboði í húsið en það var upphaflega sett á sölu í apríl í fyrr en ekki gekk að selja það.


Komment