Um það bil 80 ára gamall maður fannst í „slæmu líkamlegu ástandi“ eftir að hafa búið í að minnsta kosti 20 ár í gluggalausum kjallara án salernis eða eldhúss, að sögn finnsku lögreglunnar í dag.
Tveir menn og ein kona, öll um sextugt, voru handtekin en síðar látin laus, sagði lögreglan við AFP. Hún bætti við að hinir grunuðu og fórnarlambið þekktust, en væru ekki skyld.
Lögregla hefur hafið rannsókn til að kanna hvort einstaklingar sem bjuggu í sama húsi í Helsinki hafi „framið mansal, nýtt sér stöðu mannsins og haldið honum við niðurlægjandi aðstæður, hugsanlega í fjárhagslegum tilgangi“.
Maðurinn fannst í húsi í norðurhluta finnsku höfuðborgarinnar við húsleit lögreglu á mánudag og var „í brýnni þörf fyrir aðstoð“.
Kjallarinn sem hann bjó í var „gluggalaust herbergi, án aðgangs að baðaðstöðu, salerni eða möguleika á að útbúa mat“, að sögn lögreglu.
„Hann hafði búið við þessar aðstæður í að minnsta kosti 20 ár,“ sagði yfirlögregluþjónninn Jari Korkalainen, sem stýrir rannsókninni, við AFP og kallaði málið „óvenjulegt“.
„Eftir því sem tíminn hefur liðið hefur heilsu viðkomandi hrakað,“ sagði hann.
Lögreglan sagði að maðurinn væri „nú í umsjá viðeigandi yfirvalda“.

Komment