Einar Már Guðmundsson rithöfundur lifir sig inn í heima sögupersónanna sem hann galdrar fram og fyrir honum er ritlistin þátttaka í samfélaginu. Hann var verðlaunaður fyrir bók sína um bróður sinn, sem lifði í skammarkrók samfélagsins. Í viðtali við Mannlíf lítur hann yfir farinn veg á ritvellinum.
Einar Már Guðmundsson er búinn að skrifa nýja bók. Allt frá hatti oní skó er heiti hennar og vísar hún þar með í auglýsingu herrafataverslunarinnar Herradeild P&Ó við Austurstræti á sínum tíma.
Bókin segir frá Haraldi sem ætlar að verða skáld og með það að markmiði flytur hann til Kaupmannahafnar með kærustunni sumarið 1979. Þar lendir hann strax í suðupotti menningar og sköpunar og kynnist margs konar fólki, hreingerningakonum, listamönnum og skáldum, gömlum vinum sem skjóta upp kollinum, og nýjum skáldskap, nýjum viðhorfum og tónlist. Þetta er fjörug bók og persónurnar eru skrautlegar og á þessum órólegu tímum birtist Haraldur með sinn nýstárlega skáldskap og hefur sinn feril sem skáld.
Í smíðum allan ferilinn
„Ég nota þroskasögu skáldsins til að segja ýmsar aðrar sögur,“ segir Einar Már. „Fyrir mér var þetta meira spurning um að finna sig í sköpuninni. Ég man ekki eftir að hafa tekið ákvörðunina: „Ég ætla að verða skáld.“ Ég hugsa að ég hafi bara verið það frá byrjun. En ég fékk markvissan áhuga á að skrifa upp úr tvítugu. Um þetta má líka lesa í sögunni Passamyndir sem kom út árið 2017. Hún og þessi nýja saga, Allt frá hatti oní skó, hafa verið í smíðum allan minn feril. Fyrir mér hefur ritlistin verið lífsstíll, tilraun til að ráða sér sjálfur. Það þýðir ekki að þú vinnir minna, jafnvel öfugt, að þú vinnir meira.“
Nýja sagan, Allt frá hatti oní skó, segir frá tíma Einars Más í Kaupmannahöfn, í byrjun níunda áratugarins, frá 1979 til 1985, og hún lýsir líka sambandi landanna, Íslands og Danmörku, þessari löngu sögu, þessu langa hjónabandi.
Allt frá hatti oní skó
„Íslendingar! Íslendingar í Kaupmannahöfn! Við höfum brallað margt. Við höfum rannsakað rúnir, ævaforna texta og tungumál sem varla eru til. Við höfum setið í fangelsum, verið hermenn í fjarlægum löndum, skráð sögur og varðveitt minningar annarra.
Jón Indíafari var í danska hernum á sautjándu öld og dvaldi í Kaupmannahöfn og sigldi um Austurlönd og skráði niður lýsingar á Kaupmannahöfn og fjarlægum löndum sem enginn annar í samtíð hans gerði.
Að vera Íslendingur í Kaupmannahöfn, það er konsept, en konsept sem enginn skilur nema Íslendingar, og kannski Færeyingar og Grænlendingar, við, þessar þjóðir sem höfum verið gestir á heimili hinna gömlu herra, ég þori ekki að segja nýlenduherra, en ýmist gestir eða þegnar, ef svo má segja, í blíðu og stríðu.
Danir sjálfir vita ekki einu sinni um hvað er verið að tala, enda er þeim lítið kennt um samband landanna í skólakerfinu, eða það er mér sagt og það hef ég orðið var við á ferðum mínum um landið, um Danmörku. En það er þeirra vandamál, því að þetta er mikil saga í hugum okkar Íslendinga.
Nýlenda er víst ónákvæmt hugtak og stjórnskipulega var Ísland aldrei nýlenda heldur svokallað hjáland eða biland. Við heyrðum undir kónginn en áttum að stjórna okkar málum, auðvitað í samráði við kónginn.
Danir fá oftast bara að vita að þessi lönd séu byrði á baki þeirra eða hafi verið það, að þeir borgi með Færeyingum og Grænlendingum og að það hafi verið hálfgerð fórnfýsi að stjórna Íslendingum, sem raunar sé ekki hægt að stjórna, þessum líka dónum sem aldrei kunna að þakka fyrir sig og yfirgefa þig þegar þú ert fangi í stríðsátökum.
Þetta, að í dönskum sögubókum sé varla minnst á Ísland, um það skrifar rithöfundurinn Pétur Gunnarsson: „Þær stundir koma að Íslendingur í Danmörku hlýtur að spyrja sig hvort hann sé skáldskapur. Ímyndun. Ísland er ekki til í Danmörku. Ég held að ég hafi varla sleppt úr eintaki af Politiken síðustu tvo mánuði og fullyrði að Ísland hefur ekki svo mikið sem borið á góma, utan stöku sinnum bregður fyrir smáauglýsingu frá Flugleiðum þar sem ferðir til „Ævintýraeyjunnar“ eru falboðnar.“
Pétur Gunnarsson nefnir tvö vegleg sagnfræðirit dönsk þar sem Íslands er í engu getið, eða svo gott sem, og notar líkingu sem minnir að mörgu leyti á söguna um manninn sem var orðinn gamall og hitti fyrrverandi eiginkonu sína, eða konuna sem hann hafði eitt sinn verið giftur, en þau höfðu skilið. Konan heilsaði manninum og spurði hvort hann myndi ekki eftir sér.
„Manstu ekki eftir mér?“ segir hún.
„Nei,“ hann kom henni ekki fyrir sig: Af hverju átti hann að muna eftir henni?
„Við vorum gift,“ segir konan.
„Var það gott hjónaband?“ spyr þá maðurinn.
Þessi saga er eignuð frægum manni sem var kominn með elliglöp, en þannig túlkaði Pétur Gunnarsson samband Íslands og Danmerkur. Á meðan Íslendingurinn man hvert smáatriði hjónabandsins og ýkir bæði kostina og ókostina, aðallega ókostina, vita Danirnir ekki einu sinni af þessu hjónabandi, vita ekki að þeir voru giftir.“
Brot úr bókinni Allt frá hatti oní skó
Mikið um að vera
Það er nóg að gera á aðventunni, ekki síst hjá rithöfundum sem fara víða til að lesa upp úr nýútkomnum bókum sínum. „Það er eins og þeir sögðu í gamla daga, þeir í Rolling Stones: „I've been around for a very long time“. Þeir voru að vísu að tala um Lúsífer en þetta hefur verið mín vinna í næstum því hálfa öld, að skrifa bækur, og þessi tími er alltaf dálítið sérstakur þegar bækur eru að koma út. Það er alltaf eitthvað svipað en aldrei eins.
Ég hef staðið með bókunum og gert það sem ég hef getað fyrir þær. Ég lít á þær eins og börnin mín eða þannig, ég geri ekki upp á milli þeirra. Ég þekki allar útgáfur af þessu; að bókum gangi vel eða að bókum gangi illa. En þegar upp er staðið gengur bókum kannski ekki vel eða illa. Þær bara standa fyrir sínu eða ekki,“ segir Einar Már.
„Nútíminn er yfirborðskenndur.“
Líf bóka veltur ekki á sölu, segir hann. „Sölulistar breyta engu þar um. Bækur festa sig í sessi óháð öllu veraldarvafstri. Hins vegar er allt of mikil þannig hugsun í gangi. Menn eiga að ræða það sem stendur í bókunum. En þetta er dálítið tímanna tákn. Nútíminn er yfirborðskenndur. Mjög svo. Eða kannski er það bara hraðinn. Í minningunni er þetta oft mjög spennandi tími en þetta er orðið rólegra á seinni árum eða kemur mér minna á óvart. Það er að vísu mikið um að vera núna, í þessari vertíð. Svo eru líka komnar nýjar kynslóðir þó að ekkert sé nýtt undir sólinni þegar bókmenntir eru annars vegar. Þetta hefur oft verið skemmtilegur tími við að fara í fyrirtæki og skóla og einhverjar jólahátíðir og lesa upp og kynna og vera svona á sviðinu í viðtölum og fá að tala um bókmenntir. Fyrir mér er þetta bara hluti af því sem ég hef að miðla. Viðtöl geta verið leið til að koma hugsunum á framfæri. Það fylgir þessu ákveðinn asi sem er mjög gefandi. En maður slakar meira á með árunum. Þetta verður bara að hafa sinn gang.“
Engillinn og dauðinn
Einar Már ætlaði að verða skáld og hann varð skáld - alveg eins og Haraldur. Og hann á sína sögu alveg eins og Haraldur. Sögu sem mótaði skáldið sem hann varð.
Hann var barn sem ólst upp í Vogahverfi og fjórtán ára gamall, um það leyti sem hann gekk í fullorðinna manna tölu, flutti fjölskyldan í Breiðholtið. „Við fluttum í Breiðholtið þegar allt var glænýtt þar. Foreldrar mínir byggðu einbýlishús í Stekkjunum í Neðra-Breiðholti. Þar var stutt í Elliðaárdalinn og stutt í náttúruna. Efra-Breiðholtið var ekki til. Ég fylgdist með Breiðholtinu vaxa. Á meðan foreldrar mínir voru að byggja logaði eitt ljós í Breiðholtinu.“
Það eru kaflar um Breiðholtið í nýju bókinni.
„Vogahverfið og Breiðholtið voru líkir en ólíkir heimar. Miðbærinn var líka minn heimur, og eftir að við fluttum heim frá Kaupmannahöfn um miðjan níunda áratuginn bjuggum við fimm ár í miðbænum, við Lokastíg. Svo fluttum við í Grafarvoginn. Ég er svona úthverfamaður, hef alist upp í þremur nýjum hverfum. Samt var miðbærinn mitt pláss þegar ég var strákur að selja blöð og fara í bíó og rannsaka bæinn upp á eigin spýtur og á unglingsárunum þegar ég var í Menntaskólanum við Tjörnina og tók þátt í alls konar starfsemi í miðbænum, menningarstarfsemi, uppákomum og pólitík. Ég þekki gömlu Reykjavík eða hef búið mér til mynd af henni. Ég hef lýst þessum gamla heimi, borg sem var full af fornbókabúðum og dulhyggjumönnum. Ég kem stundum í aðrar borgir sem minna mig á gömlu Reykjavík sem í sjálfu sér er ekkert gömul, því að Reykjavík er ung borg.“
Veikindi bróðurins
Þau voru nokkur systkinin. Pálmi var fimm árum eldri. Og um hann er sennilega stórkostlegasta sagan sem Einar már hefur skrifað: Englar alheimsins. Pálmi fór að breytast í kringum tvítugt. „Það er vanalega þannig. Þó er erfitt að festa fingur á þetta. Englar alheimsins lýsa þessu ágætlega, held ég. Þetta er auðvitað hluti af minni reynslu þannig að ég get ekki beint ímyndað mér neitt annað,“ segir Einar Már sem var að verða unglingur þegar bróðir hans veikist.
„Dýptin í hamingjunni er óhamingja.“
„Ég elska fyrstu setninguna í Önnu Karenínu eftir Leo Tolstoi: „Allar hamingjusamar fjölskyldur eru hver annarri líkar, en óhamingjusöm fjölskylda er jafnan ógæfusöm á sinn sérstaka hátt.“ Ég vil jafnvel ganga lengra og segja að engin eintóm hamingja sé til. Hamingja án óhamingju er bara innantómur glamúr og þar með tómleiki og ekki hamingja. Dýptin í hamingjunni er óhamingja. Þó að ég viti ekki um aðrar fjölskyldur þá tel ég að veikindi Pálma bróður míns hafi fært fjölskyldunni ýmislegt. Við þurftum að ræða margt sem annars hefði ekki verið rætt. Ógæfan er stundum gæfa, þó að ekki óski maður neinum að ganga í gegnum þetta og hefði eflaust valið að sleppa því. En svona gerist lífið og það hvað margir hafa getað tengt sig við margt sem stendur í bókinni bendir til þess að maður sé með fingurinn á einhverjum púlsi.“
Einar Már segir að Pálmi hafi verið manískur og hafi fengið ranghugmyndir. „En þetta var auðvitað allt í tímabilum og sveiflaðist mikið. Það voru margar greiningar í gangi, ein var geðklofi, önnur mania drepressive. Þetta kallast sennilega bipolar, geðhvörf, í dag. Þetta heitir allt nýjum nöfnum. Mér fannst þessar skilgreiningar, þessar greiningar, oft segja mér mjög lítið. Sértæk hugtök eru oft fjarri upplifuninni. Það er jú ein ástæðan fyrir því að skrifaðar eru skáldsögur. Til að komast inn í heim orðanna, heim skilgreininga. Skilgreiningar segja oft ekki neitt og enda sem klisjur.“
Erfiðir tímar styrkja
Einar Már segir að það hafi skipst á skin og skúrir, góðir tímar og erfiðir tímar.
Hann undirstrikar það sem hann er búinn að vera að segja: „Þótt það sé ofboðslega erfitt fyrir fjölskyldur að takast á við svona, og ég gerði mér ekki grein fyrir hvaða áhrif þetta hafði á mann, þá hef ég líka sagt að svona lagað styrkti fjölskylduna. Fjölskyldan þurfti að standa saman og opna sig og tala um aðra hluti en aðrar fjölskyldur. Stundum við fagmenn, stundum bara við sjálf. Þannig að maður horfir svolítið á þetta þannig. Það styrkti meðal annars önnur tengsl innan fjölskyldunnar að þurfa að horfast í augu við svona erfiðleika vegna þess að það er ekki hægt að búast við því að fólk sigli lygnan sjó í gegnum allt lífið. Það var mikill lærdómur í þessu fólginn. Þetta var á þeim tíma þegar það var ofboðslega erfitt að tala um svona hluti.“
Var það tabú?
„Þetta var svolítið tabú og fólk skammaðist sín. Bæði skömmuðust sín þeir sem voru veikir fyrir að vera veikir og þeir sem voru aðstandendur hinna veiku skömmuðst sín fyrir að vera aðstandendur þeirra. Og svo skömmuðust menn sín fyrir að skammast sín. Það voru alls konar hlutir sem voru erfiðir hvað það varðar.
Ég var að mörgu leyti heppinn. Á þessum tíma var talað um að þjóðfélagið væri svo brenglað og það var ákveðin rómantík gagnvart því að vera öðruvísi, já gagnvart geðveika snillingnum. Þetta viðhorf gegnsýrði hippakynslóðina og ´68 kynslóðina. Horft var á geggjun, ef svo má segja, sem viðbrögð gagnvart samfélaginu. Sama hversu rétt eða rangt það var þá hjálpaði það. Ég var sjálfur að verða unglingur þegar þetta gerðist þannig að ég var til dæmis ekki að fela þetta fyrir vinum mínum sem komu mikið heim. Þetta var svolítið meira mál fyrir systkini mín sem voru yngri af því að vinir þeirra voru yngri en vinir mínir og óþroskaðri. Mörgum af vinum mínum líkaði vel við Pálma bróður minn og hann gat verið mjög skemmtilegur og klár. Menn í þessari stöðu er oft erfiðastir við sitt fólk, sína nánustu.“
Manían sem kraftur í lífinu
Einar Már talar um brenglað þjóðfélag og hann segir að það sé margt merkilegt með svona veikindi. „Við höfum held ég þetta í okkur öll - svona maníu og depurð og alls konar tilfinningar sem eru sem betur fer í einhvers konar jafnvægi hjá flestum. Fyrir suma er manía kannski krafturinn í lífinu. Og einhvern veginn var þetta þannig þegar ég hugsa til baka. Þegar læknarnir sögðu við bróður minn heitinn að hann væri ekki lengur veikur, en það er sagt að þegar fólk veikist um tvítugt þá sé það oft búið þegar menn væru fertugir, þá hvarf einhver lífsneisti. Ég get ekki skýrt það nánar. Það var eins og til lengdar fyndist honum ekkert gaman að vera normal. Þetta er rosa flókið. Stundum hætti hann að taka lyfin í ákveðinn tíma og þá leið honum betur og honum leið vel á leiðinni upp í maníu. Það eru alls konar tilvistarlegar spurningar í kringum svona mál. Ég hef skrifað um þetta í bók sem heitir Launsynir orðanna og fjallar um frásagnarlistina. Þar er talað um þá þversögn að þegar þeim veika líður vel og er hátt uppi þá líður þeim sem eru í kringum hann illa og svo öfugt, þegar hann, hinn veiki, er góður eins og sagt er þá líður þeim eru í kringum hann vel en honum líður illa. Það er voða erfitt að festa fingur á þetta,“ segir Einar Már.
„Einn daginn vildi Pálmi ekki lifa lengur og við þekkjum niðurstöðuna af því. Hann tók sitt eigið líf, fyrirfór sér. Það var áfall fyrir fjölskylduna. Ég var þá 37 ára. Fullorðinn maður. Þetta kom ekki að öllu leyti á óvart. Hann hafði talað um þetta og gert tilraunir sem manni fannst oft meira ákall á hjálp. Að skrifa Engla alheimsins var einhvers konar sálumessa. Ég skrifaði fyrst minningargrein og við þau skrif opnuðust heimar. Ég átti mikið efni um þessi málefni. Það raðaði sér allt í einu upp og tónninn kom. Það eru til sögur sem tengjast Englum alheimsins alveg aftur til 1988, í smásagnasafninu Leitin að dýragarðinum. Sagan Regnbogar myrkursins og sagan Garðyrkjumennirnir. Síðan er fullt af sögum sem hafa komið á eftir, sögur í smásagnasafninu Kannski er pósturinn svangur og kom út árið 2001. Leitin að dýragarðinum kom út fimm árum á undan Englum alheimsins. Þannig að þetta er mikil gerjun, efniviður sem einhvern veginn hefur alltaf verið með mér.“
Fólkið í skammarkróknum
Einar Már hugsar sig aðeins um en segir svo: „Eftir á að hyggja vildi ég ekki bara skrifa bók um hann, ekki beinlínis um hann, en líka um hann og aðra í þessari stöðu. Ég var alltaf mjög upptekinn af þessari stöðu manna eins og Pálma bróður í tilverunni - að standa svona fyrir utan samfélagið, vera í skammarkróknum. Þessu fylgdi ákveðin sýn á heiminn, önnur sýn getum við sagt. Hún er oft fyndin, uppreisnargjörn en sorgleg um leið. Saga bróður míns væri ekki áhugaverð nema af því að hún er saga svo margra annarra. En það má alveg lesa þetta sem mitt sorgarferli. Svona tók ég á þessu.“
Pálmi heitinn hvílir í Fossvogskirkjugarði, í leiði hjá afa þeirra og ömmu. Hann gæti verið kominn í annan heim, af öðrum toga.
Minning hans lifir meðal annars í sögunni um engla alheimsins og fyrir þá bók hlaut litli bróðir hans Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 1995.

Að elskast á Þjóðminjasafninu
Orðin toguðu í Einar Má. Setningarnar. Kaflarnir. Bækurnar. Þessi heimur sem bækurnar bjóða upp á. Hann sem ólst upp fram á fermingaraldur í Vogahverfinu fór í strætisvagni niður í miðbæ en hann stundaði nám við Menntaskólann við Tjörnina. Bókmennirnar og sagan toguðu líka í hann og stundaði hann síðar nám í bókmenntafræði og sagnfræði við Háskóla Íslands. Árið 1979 lá leiðin til kóngsins Köben þar sem hann stundaði framhaldsnám í bókmenntum við Kaupmannahafnarháskóla en hann bjó í höfuðstaðnum danska í sex ár. Og sá tími og sú reynsla kemur fram í nýju bókinni hans um Harald sem ætlar að verða skáld.
Einar Már fór ekki einn til Kaupmannahafnar. Með honum í för var ástin í lífi hans, eiginkonan Þórunn Jónsdóttir.
„Ég var svona að byrja,“ segir hann um rithöfundarferilinn. „Ég var búinn að skrifa talsvert en ég var að móta þetta ætlunarverk að verða rithöfundur og þá var oft gott að fara aðeins í burtu. Ég notaði þetta svolítið sem tækifæri til að geta skrifað í friði.“
Fyrstu ljóðin birtust í Lesbók Morgunblaðsins og Tímariti Máls og menningar sem og tímaritinu Svart og hvítu sem hann gaf út ásamt vinum úr Gallerí Suðurgata 7. Þetta var á háskólaárunum hér heima, frá 1975 til 1979, og þessi ár voru jafnframt árin úti á vegunum, ár mótunar og ferðalaga og vinnu hingað og þangað í veröldinni, eins og hann orðar það. Frá þessum tíma segir líka í sögunni Passamyndir frá 2017 sem og í þeirri nýju Allt frá hatti oní skó.
„Svo hélt ég áfram að vinna þarna úti í mínum skáldskap og allt í einu var ég búinn með fyrstu þrjár ljóðabækurnar og þar með talið Er nokkur í kórónafötum hér inni? og Sendisveinninn er einmana, sem komu út árið 1980, og Róbinson krúsó sem kom út ári síðar.“
Einar Már, sem bendir á að hann hafi á þessum tíma verið óskrifað blað, hafði sent bækurnar til forlags og segir hann að þeim hafi án efa fundist hann vera stór upp á sig. Hann kímir. Hlær. „Gaur að senda heilar þrjár ljóðabækur og ætlast til að þeir gefi þær allar út. Og ég fékk neitun. En þetta voru þannig tímar í kringum 1980 að ef maður fékk neitun á einum stað þá leitaði maður bara á öðrum stað. Það var ansi margt að breytast. Þetta var pönktíminn og í pönkinu sögðu menn „gerðu hlutina bara sjálfur“. Það var hefð fyrir því á Íslandi að menn gæfu bækurnar út sjálfir. Ég fékk prentara í Odda til að prenta bækurnar og gaf þær sjálfur út. Notaði nafnið á Galleríinu sem ég var tengdur, Gallerí Suðurgata 7 hét það. Ég kalla það Gallerí Vonarstræti í nýju sögunni. Ljóðabækurnar seldust upp. Þetta var stórt og mikið forlag sem hafði ekki viljað gefa þær út og er forlagið mitt í dag. Forráðamennirnir sáu eftir því seinna vegna þess að bækurnar urðu mjög vinsælar. Þetta er gömul saga og ný.“
Einar Már segir að í Kórónafötunum hafi verið stuttar athugasemdir. Svolítið ábyrgðarlausar.
Það eru skilaboð í ljóðunum. Hér eru dæmi:
væri ég
bilað sjónvarp
myndi ég örugglega
valda frekari truflunum
í lífi ykkar
„Merkilegt að þetta sé fyrsta setningin í fyrstu bókinni minni,“ segir Einar Már, „vegna þess að það má segja að þetta sé yfirlýsing. Dálítið djörf yfirlýsing. Eða fífldjörf. Það er hægt að túlka hana.“
Hann les líka upp ástarljóð.
eftir ca 2000 ár
þegar forleifafræðingarnir finna bein okkar
getum við ef til vill elskast á Þjóðminjasafninu
„Þetta er allt ljóðið,“ segir Einar Már. „Svo er annað sem heitir Drög að skilgreiningu.“
skyndilega
stoppa ég og skoða
hlykkjótt spor mín í snjónum
mér er spurn
hvort ég hafi lagt
krók á leið mína einsog
evrópukommúnistarnir
nei ég er bara fullur
„Skáldskapurinn gekk út á að vera ekki korrekt. Að synda á móti straumnum. Nú þykir ekki lengur fínt að synda á móti straumnum og allir eiga að vera korrekt. Ég veit ekki hvort þetta sé jákvætt eða neikvætt, en það er miklu meiri sáttfýsi við „sýstemið“ í dag og minni uppreisnargirni. En kannski er þetta bara þannig í dag, að það er svo margt í gangi.“
„Nú þykir ekki lengur fínt að synda á móti straumnum“
Einar Már átti ekki Kórónaföt á þessum árum. „Málið var að ég átti leðurjakka með ótal rennilásum sem mér hafði áskotnast árið áður þegar pönkið var að byrja í London. Þar hafði einn af þvælingum mínum endað.“
Einar Már, sem fæddist árið 1954, segist hafa verið of ungur til að gerast hippi og of gamall til að verða pönkari. Hann var mitt á milli að eigin sögn og fílaði hvort tveggja sem kom vel út þegar upp var staðið.
Handritin heim
Einar Már segir að það hafi verið talsvert líf í tuskunum hjá Íslendingunum í Kaupmannahöfn. Hann nefnir leikhópa og hljómsveitir og talar um svolítið bóhemalíf á liðinu. „Það höfðu margir flúið; fólk sem vildi lifa öðruvísi eins og samkynhneigðir og fleiri og fannst auðveldara að búa þar. Það var stór og sterk íslensk nýlenda og við sem vorum að skrifa gátum verið með upplestra svo sem í Jónshúsi og það var vel mætt.
Þetta voru mjög áhugaverðir tímar, bæði hérna heima og líka úti í Danmörku. Það voru ákveðin uppgjör. Það höfðu verið tímar þar sem var lögð ógurleg áhersla á raunsæi og boðskap og töldu margir að hlutverk skáldskaparins væri að frelsa fólk. Mínir jafnaldrar fóru að leggja meiri áherslu á að ljóðið þyrfti líka að vera gott. Við getum sagt að það hafi orðið ákveðin áhersla á fagurfræði. Sjálfum fannst mér ég vera með fæturna á báðum stöðum - að maður þyrfti að vera að segja eitthvað mikilvægt um samfélagið og tímann og líka að maður yrði að gera það með góðum skáldskap. Réttlæting bókmennta gat ekki bara verið sú að segja einhvern sannleika. Oft þegar fólk er að tala fyrir einhverjum stefnum þá verður þetta oft á eina bókina lært, þegar allt er í rauninni mjög fjölskrúðugt. Bókmenntastefnur eru hjálpartæki, ekki kreddur. Þetta kemur bara til manns.“

Einar Már segir að árin sex í Kaupmannahöfn hafi verið gefandi og að einhverju leyti efniviður nýju sögunnar, Allt frá hatti oní skó.
„Á þeim árum komu út þessar þrjár ljóðabækur og svo kom út Riddarar hringstigans sem er skáldsaga. Ég skrifaði hana úti; á meðan ég bjó úti. Og líka næstu, Vængjaslátt í þakrennum. Ég átti gríðarlega mikið efni og ég skrifaði mjög mikið. Þarna úti. Ég þorði ekki annað þegar við fluttum heim en að taka þetta í handfarangri. Ég held þetta hafi verið um tuttugu kíló af handritum.“
Draumar og veruleiki
Einar Már Guðmundsson er listamaður. Listamaður orðsins. Skrifar eins og galdramaður.
Hann talar um draumkenndan stíl sem hann er hrifinn af. Hann nefnir drauminn um hestana í Englum alheimsins en það er draumur sem móður hans dreymdi í raun og veru. Það er líka hægt að sjá þennan stíl í Fótspor á himnum og Draumum á jörðu. Hann bendir á að í bókinni Eftirmálar regndropanna séu skilin á milli draums og veruleika óskýr. „Draumar og veruleiki hafa alltaf höfðað til mín.“
„Langt úti í túninu sá hún fjóra hesta. Þeir stóðu allir á beit, spölkorn hver frá öðrum. Hún hafði ekki séð þessa hesta áður. Þetta voru ekki hestarnir hans afa.
En þetta voru velskapaðir, hnarreistir og fallegir hestar: Einn var rauður, annar brúnn, sá þriðji jarpur en sá fjórði skjóttur.
Mömmu fannst hún eiga þessa hesta. Þeir voru í hættu. Hún varð að bjarga þeim.
Þegar hestarnir hlupu af stað dróst sá skjótti aftur úr. Hann hljóp í hringi og hagaði sér afar undarlega. Svo ætlaði hann að taka á rás, eins og hinir hestarnir, en þá hrasaði hann og datt.
Þegar mamma kom að honum lá hann dauður á jörðinni. Mamma horfði andartak inn í opin augu hans, en í næstu andrá lá hún vakandi, því ég var farinn að sprikla og sparka og vildi ólmur komast inn í þennan heim sem ég síðar hvarf úr.“
„Ég verð að trúa hinu ótrúlega.“
Einar Már er spurður hvort hann telji að það sé eitthvað meira til en margir vilja viðurkenna. „Já, ég geng alveg út frá því. Annars væri ég ekki það skáld sem ég er. Ég verð að trúa hinu ótrúlega. Ég held að skáldskapur sé að mörgu leyti leifar af gömlum veruleika. Að veruleikinn á miðöldum hafi til dæmis verið miklu stærri. Áður voru draumarnir hluti af veruleikanum. Þessir fyrirbæri greinast í sundur með tækni og framförum, sem eru kannski ekki framfarir.“
Finnst honum hann stundum týnast í einhverjum öðrum heimi þegar hann er að skrifa?
„Eflaust má segja að maður hafi að hluta til lifað í öðrum heimi þótt það sé ekkert póstnúmer þar. Fyrir mér snýst þetta um að lifa sig inn í þann heim sem maður er að skrifa um. Menn tala um töfraraunasæi, en fyrir mér eru töfrarnir bara hluti af veruleikanum. Að minnsta kosti ef maður er að skrifa skáldskap. Skáldskapurinn er ákveðin sýn á heiminn.“


Komment