
Jóhann Helgi Hlöðversson lét vita í gær að frægasti hrafn Íslands, Dimma, sem hann hefur alið upp en á milli þeirra er einstakt samband, hefur ekki komið heim síðustu daga. Dimma ætti að vera í Heiðmörk, nálægt Rauðhólum, en hefur hvorki sést né borðað matinn sinn.
Í morgun birti Jóhann Helgi síðan myndband þar sem hann segist hafa heyrt af refi við Helluvatn. Þar sást refur drepa álft í fyrradag og éta hana, auk þess sem hann bar leifar í land við húsið sem Jóhann Helgi bjó í áður. Samkvæmt Jóhanni var refurinn stór og mórauður. Hann hvetur til að grenjaskyttur Reykjavíkurborgar hafi eftirlit á svæðinu til að koma í veg fyrir frekari usla.
„Við sáum Dimmu hvergi í dag en augljós merki eru um dýrbít og álftadráp,“ segir Jóhann í færslu sem hann birti síðan rétt í þessu. Hann bætir við að hreyfing hafi sést við holu þar sem sterk lykt benti til minka eða refaskíts. Dimma er auðkennd á því að annar vængurinn á henni sígur aðeins niður þegar hún situr.
Jóhann Helgi vonast til að Dimma finnist á lífi og fylgist náið með svæðinu í leit að hrafninum.

Komment