
Viktor Ólason, útgefandi og framkvæmdastjóri, Iceland Review sakar fyrrverandi eigendur vefritsins um blekkingar í fréttatilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum.
Tímaritið, sem stofnað var árið 1963, hætti að koma út í prentútgáfu í nóvember í fyrra en vefsíða þess hélt áfram starfsemi. Samkvæmt Viktori var hætt við að prenta tímaritið vegna prentunarkostnaðar, rekstrarkostnaðar og breytts heims. Hann segir einnig að meira en nóg sé til af fallegum myndum af íslenskri náttúru á netinu.
Þá segir hann að áskrifendur tímaritsins hafi verið 128 en ekki í kringum 2000 eins og fyrrum eigendur hafi haldið fram þegar vörumerkið var selt. Rétt er þó að taka fram að ekki voru send gögn með tilkynningunni sem staðfesta þessar ásakanir.
Fréttatilkynningin var send út í kjölfar fréttar Heimildarinnar um notkun gervigreindar af hálfu tímaritsins en það birti fyrir stuttu myndband sem átti að sýna Hafnarfjörð en var greinilega búið til með gervigreind.
„AI er staðreynd og með notkun þessarar tækni má lækka kostnað verulega fyrir auglýsendur og markaðssetjendur. Jú þessu fylgja barnasjúkdómar sem sífellt þarf að laga en það á ekki að stoppa fólk við að nota og þróa,“ skrifar Viktor meðal annars um gervigreindarnotkunina í fréttatilkynningunni.
Komment