
Glúmur Baldvinsson, alþjóðastjórnmálafræðingur, minnist afa síns, Hannibals Valdimarssonar fyrrverandi ráðherra og verkalýðsforingja, í persónulegri færslu þar sem hann rifjar upp áhrifamikla nærveru hans, flókna fjölskyldusögu og arfleifð á vinstri væng íslenskra stjórnmála. Hannibal var einn umdeildasti og skrautlegasti stjórnmálaleiðtogi síðustu aldar.
„Afmælisdagur afa enn og aftur. Ég náði aldrei að kynnast honum náið af því hann og pabbi were rowing einsog sagt er á gamalli írsku. Áttu eitthvað óuuppgert,“ skrifar Glúmur og lýsir því hvernig samband föður hans, Jóns Baldvins Hannibalssonar og afa hafi haft áhrif á tengsl þeirra.
Þrátt fyrir það hafi Hannibal verið stöðug nærvera í lífi hans undir það síðasta. Glúmur segir að síðustu ár ævi sinnar hafi afi hans reglulega komið í sunnudagsmat á heimili fjölskyldunnar. „En síðustu ár hans kom hann reglulega á Vesturgötuna í lamb á sunnudögum. En hann var þá orðinn roskinn. Mælti fátt en mælti vel og á óaðfinnanlegri íslensku sem nú er nánast útdauð.“
Í færslunni rifjar Glúmur einnig upp hvernig nafn Hannibals hafi vakið sterk viðbrögð víða um land. „En nærvera hans var ævarandi frá því ég man eftir. Fólk stoppaði mig á götum úti á Ísafirði og jafnvel Reykjavík til að benda mér á hvurs konar stórmenni afi minn væri. En ekki alltaf,“ skrifar hann.
Hann lýsir einnig minningu úr æsku sem sýnir hversu umdeild persóna Hannibal var í augum sumra. „Púki frá Bolungarvík vissi að afi væri Hannibal þegar ég fór um hlíðina með vinum mínum og kallaði: Mikið var að beljan bar í fjósinu hjá Hannibal. Ég trylltist og endaði þetta með blóðugum slagsmálum. Ég stend enn á því að íhaldsidjótið pabbi hans hafi att honum á mig.“
Glúmur segir að þrátt fyrir allt hafi hann aldrei efast um grundvallargildi afa síns og þá fórn sem hann færði í þágu verkalýðsins. „En hvað um það. Ég veit fátt en ég veit að Hannibal var frábær skólastjóri og kennari og elskaði alþýðuna og gaf allt sitt fyrir kjör verkafólks þótt það bitnaði á hans eigin fjölskyldu.“
Að lokum lýsir hann Hannibal sem manni sem lifði lífi sínu af heilindum og eldmóði. „Hann var verkalýðsforingi af ástríðu og náð.“

Komment