
Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Helga Bjarti Þorvarðarsyni í svonefndu Hafnarfjarðarmáli, samkvæmt upplýsingum sem DV hefur undir höndum.
Helgi Bjartur er ákærður fyrir húsbrot, nauðgun og kynferðisbrot gegn barni. Í ákæru segir að hann hafi snemma morguns 14. september 2025 farið inn í íbúðarhús í Hafnarfirði án leyfis. Þar á rishæð hússins hafi hann farið inn í svefnherbergi, farið úr buxum og lagst upp í rúm hjá dreng sem þar svaf.
Hann er sagður hafa brotið kynferðislega gegn drengnum og beitt hann ofbeldi og ólögmætri nauðung. Ákæruvaldið telur að Helgi Bjartur hafi nýtt sér yfirburði sína vegna aldurs og líkamlegs styrks, auk þess sem drengurinn hafi verið ófær um að veita mótspyrnu vegna ungs aldurs og þess að hann var sofandi eða vegna svefndrunga.
Í öðrum ákærulið er Helgi Bjartur jafnframt ákærður fyrir vændiskaup.
Samkvæmt heimildum DV neitaði hann sök varðandi húsbrot og kynferðisbrot gegn drengnum við þingfestingu málsins í morgun, en játaði vændiskaupin.
Aðalmeðferð málsins er áætluð 23. mars næstkomandi fyrir Héraðsdómi Reykjaness, en þinghaldið mun fara fram fyrir luktum dyrum.

Komment