
Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri og fyrrverandi björgunarsveitarkona, minnir á mikilvægi fjölbreytileika og samstöðu í björgunarsveitum í færslu sem hún birti á Facebook í dag í kjölfar umræðu um útlit Neyðarkallsins í ár.
Í færslunni bendir Anna á að Neyðarkallinn, sem seldur er árlega til styrktar björgunarsveitum landsins, sé í hvorugkyni og hafi bæði karlar og konur áður verið fyrirmyndir hans. „Þó að venjulega sé talað um neyðarkallinn í karlkyni, þá hafa nokkrar stúlkur verið notaðar sem fyrirmyndir að neyðarkallinum,“ skrifar hún.
Að þessu sinni er Neyðarkallinn straumvatnsbjörgunarmaður í minningu Sigurðar Kristófers McQuillans Óskarssonar, formanns björgunarsveitarinnar Kyndils í Mosfellsbæ, sem lést í slysi á æfingu í fyrra. Sigurður var dökkur á hörund, og hefur Neyðarkallinn í ár því sama yfirbragð. „Við erum nefnilega allskonar. Það sem sameinar okkur er viljinn til að gera gagn á neyðarstundu,“ skrifar Anna í færslunni.
Fréttir bárust í gær af því að björgunarsveitakona sem sinnti fjáröflun hefði orðið miður sín eftir að fá fjölda athugasemda um húðlit Neyðarkallsins. Anna bendir á að slíkar athugasemdir eigi ekki heima í samfélagi þar sem björgunarfólk starfar saman án tillits til uppruna eða trúar.
„Í björgunarsveitum þrífst alls kyns fólk og við erum öll velkomin,“ skrifar hún. „Þar er ekki velt sér upp úr kynhneigð né kynvitund, trúhneigð, litarhætti eða uppruna. Í björgunarsveitunum er pláss fyrir alla sem geta lagt eitthvað af mörkum í sjálfboðastarfi, og það er þörf fyrir sem flesta.“
Að lokum segir Anna að hún muni sjálf kaupa Neyðarkallinn í ár, „hvort sem hann er karl eða kona, hvítur, svartur, múslími, samkynhneigður eða trans“.

Komment