
Varnarmálaráðherra Ítalíu hefur fordæmt það sem hann segir hafa verið drónaárásir óþekktra aðila í nótt á flota sem hyggst brjóta hafnbann Ísraels við Gaza til að koma hjálpargögnum til íbúa svæðisins.
Guido Crosetto, varnarmálaráðherra Ítalíu, greindi jafnframt frá því að hann hefði sent ítalska freigátu til flotans, sem telur 52 báta og er að mestu staðsettur við Krít eins og er, til að veita ítölskum ríkisborgurum á skipunum aðstoð.
Samkvæmt yfirlýsingu Global Sumud Flotilla (GSF) urðu mörg skipin fyrir sprengingum og árásum með óþekktum hlutum úr lofti. Þá var einnig greint frá drónum yfir svæðinu og truflunum á fjarskiptum. Samtökin sökuðu Ísrael um „hættulega stigvaxandi aðgerðir“.
Ísraelsstjórn hefur ekki tjáð sig um málið, en hefur áður sagt að flotinn muni ekki fá að sigla til áfangastaðar.
Atvikið átti sér stað um 50 kílómetra suður af Krít. Óstaðfest myndbandsupptaka úr eftirlitsmyndavél, sem GSF birtu, sýnir mann stökkva um borð í snekkju eftir að sprenging virtist verða nálægt. Í öðru myndbandi, sem sagt var tekið af skipinu Spectre, sást einnig sprenging. Farþegar sögðu að þeir hefðu óskað eftir aðstoð frá gríska strandgæslunni.
Samkvæmt heimildum fréttastofunnar AMNA sendi strandgæslan skip frá landamæraeftirliti Evrópusambandsins, Frontex, á vettvang, en þar hafi ekki fundist nein ummerki um skemmdir á bátunum.
Sænski loftslagsaðgerðarsinninnn Greta Thunberg, sem tekur þátt í flotanum, sagði atvikið vera „hræðsluaðferð“.
Á mánudag sakaði utanríkisráðuneyti Ísraels flotann um að vera „skipulagður af Hamas“ og hvatti til þess að hjálpargögnin yrðu afhent í höfninni í Ashkelon til áframhaldandi flutnings til Gaza. „Ísrael mun ekki leyfa skipum að sigla inn á virkt átakasvæði né brjóta lögmætan flotahernað,“ sagði í yfirlýsingunni.
GSF segir hins vegar markmið sitt vera að „rjúfa ólögmæta umsátrið um Gaza sjóleiðina, opna mannúðargátt og binda enda á þjóðarmorð á palestínsku þjóðinni“.
Fyrir tveimur vikum greindu samtökin frá því að tvö skip hefðu orðið fyrir drónaárásum í sitthvoru lagi við Túnis. Stjórnvöld í Túnis sögðu þá að rannsókn stæði yfir.
Í júní var Thunberg meðal tólf farþega á hjálparskipinu Madleen sem var stöðvað af ísraelskum hersveitum 185 kílómetra frá Gaza. Annað skip, Handala, með 21 manns um borð, var stöðvað 75 kílómetra frá Gaza í júlí.
Skip flotans héldu til hafs eftir að sérfræðingar frá Integrated Food Security Phase Classification (IPC), sem starfar með stuðningi Sameinuðu þjóðanna, staðfestu að hungursneyð væri komin upp í Gaza-borg og varað við því að hún gæti breiðst til mið- og suðurhluta svæðisins á næstu vikum.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gaza, sem er undir stjórn Hamas, hafa að minnsta kosti 440 Palestínumenn látist af völdum vannæringar frá upphafi stríðsins, þar af 162 frá því hungursneyð var formlega staðfest.
Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað hvatt Ísrael til að tryggja óhindraða, umfangsmikla mannúðaraðstoð sem geti bjargað mannslífum. Sem hernámsaðili beri Ísrael lagaleg skylda til að sjá íbúum Gaza fyrir nægum mat og lyfjum.
Ísrael hefur hins vegar haldið því fram að það fylgi alþjóðalögum og auðveldi flutning aðstoðar. Það hefur einnig hafnað niðurstöðum IPC og tölum heilbrigðisráðuneytisins í Gaza, sem og ásökunum um þjóðarmorð, sem nýlega voru endurteknar í skýrslu rannsóknarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Her Ísraels hóf hernaðaraðgerðir á Gaza eftir árás Hamas á Suður-Ísrael 7. október 2023, þegar um 1.200 manns voru drepnir og 251 manns tekin í gíslingu.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu á Gaza hafa að minnsta kosti 65.419 manns látist í loftárásum Ísraels síðan þá, meirihlutinn konur og börn.
Komment