
Tekjublað Frjálsrar verslunar sagði frá því í morgun að laun framkvæmdarstjóra Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Kristján Þór Harðarson, hefði verið með tæpar 10 milljónir á mánuði í laun í fyrra. Upplýsingafulltrúi Landsbjargar segir töluna villandi þar sem um sé að ræða úttekt séreignarsparnaðar Kristjáns.
Í yfirlýsingu frá Landsbjörg er bent á að tölurnar sem birst hafa í fjölmiðlum í dag um laun Kristjáns Þórs séu villandi vegna þess að í fyrra hafi hann tekið út séreignarsparnað sinn, eins og leyfilegt er við sextugsaldurinn. Þar segir að launin sem félagið greiði séu í sanngjörn en langt frá því að vera með þeim hæstu á landinu.
Hér má lesa yfirlýsinguna í heild sinni:
Vegna frétta fjölmiðla í morgun um að framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar hafi á árinu 2024 verið með um 9,8 milljónir í laun á mánuði, er rétt fram komi að stærsti hluti þessara reiknuðu launa eru úttekt séreignasparnaðar Kristjáns síðustu 35 ára, sem Kristján leysti út á síðasta ári, líkt og heimilt er við sextugs aldur.
Hér er dæmi um hve villandi það er þegar laun eru reiknuð til baka út frá skattgreiðslum, en við úttekt séreignasparnaðar greiddi hann að sjálfsögðu þá skatta sem honum bar, sem svo koma fram í álagningarskrá skattyfirvalda.
Félagið greiðir laun í samræmi við stöðu sína sem stærstu samtök sjálfboðaliða í landinu. Þau eru sanngjörn en eiga talsvert í land með að komast inn á topp tíu listann, hvað þá að toppa hann.
Komment