
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir því að fjölmiðlar noti ekki orðið „eltingaleikur“ í samhengi við störf lögreglu en þetta kemur fram í dagbók lögreglu sem send var á fjölmiðla í morgun.
„Að gefnu tilefni vekur undirritaður athygli fjölmiðla á því að eftirfarir lögreglu eru ekki eltingaleikir, enda leikur lögregla sér ekki að því að elta fólk, hvort sem það er á fæti eða í umferðinni, heldur er það nauðsynlegur liður í því að stemma stigum við afbrotum og stöðva ólögmæta háttsemi,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.
Líklegt þykir að lögreglan sé með þessu að vísa í frétt sem Vísir skrifaði í gær en upphafleg fyrirsögn á þeirri frétt var „Lögregla í eltingaleikjum við afbrotamenn“ en þeirri fyrirsögn var síðar breytt.
Vekur þetta athygli í ljósi þess að orðalag þetta hefur oft verið notað um störf lögreglu í tæpa öld ef marka má snögga leit á tímarit.is.
„Þetta og þessu líkt hefir verið viðkvæðið hjá öllum þeim fjölda fólks, sem talað hafa við ritstjóra Alþýðublaðsins um eltingaleik lögreglunnar og fátækrafulltrúanna við konuna, sem flýði til Hafnarfjarðar og fól sig þar, til þess að reyna að komast hjá því að vera flutt nauðug á sveit sína,“ segir í frétt Alþýðublaðsins árið 1928

Komment