
Mataráhrifavaldurinn Michael Duarte var skotinn til bana af lögreglu í Texas eftir að hafa hótað að drepa fólk, samkvæmt nýjum upplýsingum sem lögreglan hefur birt.
Talsmaður lögreglunnar í Medina-sýslu segir í samtali við TMZ að lögreglumenn hafi brugðist við neyðarsímtali þann 8. nóvember í bænum Castroville í Texas vegna atviks þar sem „karlmaður með hníf hagaði sér óeðlilega“.
Samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar nálgaðist Duarte einn lögreglumann á ógnandi hátt, sjúkraflutningamenn voru þá þegar komnir á vettvang, og þrátt fyrir ítrekaðar skipanir lögreglukonunnar um að leggjast á jörðina, hafi Duarte hlaupið að henni á meðan hann öskraði: „Ég ætla að drepa þig.“
Þá skaut lögreglukonan tvisvar úr byssu sinni og hæfði Duarte, að því er fram kemur í yfirlýsingu lögreglunnar.
Honum var veitt aðhlynning á vettvangi og síðan fluttur á háskólasjúkrahúsið í San Antonio, þar sem hann var úrskurðaður látinn.
Andlát hans átti sér stað aðeins örfáum dögum eftir að hann og eiginkona hans höfðu haldið upp á brúðkaupsafmæli sitt.
Umboðsskrifstofa Duarte staðfesti andlát hans og lýsti honum sem „elskulegum eiginmanni Jessicu konu sinnar, umhyggjusömum föður dóttur þeirra, bróður og tryggum vini ótal fólks um allan heim.“
Duarte var með meira en tvo milljón fylgjendur á Instagram, TikTok, Facebook og YouTube, þar sem hann var þekktur fyrir að birta matar- og grillmyndefni undir notandanafninu @foodwithbearhands. Hann deildi uppskriftum og myndböndum af sjálfum sér að elda og grilla.
Lætur hann eftir sig eiginkonu, sem hann var giftur í níu ár, og dóttur þeirra.

Komment