Leikarinn Mikael Emil Kaaber hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum en hann hefur leikið stór hlutverk í kvikmyndunum Ljósbrot og Kuldi. Hann mun hins vegar leika aðalhlutverkið í söngleiknum Moulin Rouge! í Borgarleikhúsinu en hann verður sýndur næsta haust. Mikael dreymdi þó um frama í knattspyrnuheiminum þegar hann var yngri.
„Fótbolti á hug minn allan þegar ég er yngri,“ sagði Mikael í viðtali á Rás 2.
„Þetta urðu alveg 14 ár af ævi minni. Stefnan var lengi vel sett á fótboltann,“ og var stefnan sett á atvinnumennsku í knattspyrnu en „leiklistin og fótboltinn voru alltaf svolítið að keppa.“
Mikael þótti á sínum yngri árum mjög efnilegur knattspyrnumaður og vann meðal annars Shell-mótið í Vestmannaeyjum og Íslandsmótið með Fylki. „Maður var svona partur af þessu A-liði lengi framan af en af því að ég verð svo seinþroska þá fer ég að dragast aftur úr. Það er kannski það sem hafði hvað mest mótandi áhrif á mig. Ég var svolítið þybbinn og átti erfitt með að létta mig,“ segir Mikael.
„Á þessum tíma fæ ég líka lítið hlutverk í Málmhausi eftir Ragnar Bragason, er að leika lítinn Hannes Óla sem kemur á hestbaki, voða töff. Það er á þessum tíma þegar ég er að dragast aðeins aftur úr. Þá grípur leiklistin mig.“
Komment