
Barnaníðingurinn Ghislaine Maxwell, sem afplánar 20 ára dóm fyrir mansal, hefur verið mynduð á leið í jógatíma í hinu „mjúka“ fangelsi þar sem hún dvelur nú.
Myndirnar hafa æst upp fórnarlömb hennar sem voru þegar reið yfir því að hún skyldi vera hafa verið flutt í hið svokallaða Camp Cupcake aðeins þremur árum eftir að hún hlaut dóminn. Flutningurinn brýtur gegn reglum bandarískra fangelsa sem segja að kynferðisbrotamenn megi ekki afplána í lágmarksöryggisfangelsi eins og Federal Prison Camp Bryan í Texas.
Maxwell var flutt frá úreltu fangelsi í Tallahassee í Flórída aðeins viku eftir að hún tjáði sig á jákvæðan hátt um fræga vináttu Donalds Trump við barnaníðinginn Jeffrey Epstein, fyrrverandi kærasta sinn.
Eitt fórnarlambanna sagði:
„Ghislaine eyðilagði svo mörg líf og nú er henni umbunað með flutningi í klúbbafangelsi. Þetta er hreinasta óvirðing við þolendur. Við lifum með örum sem gróa aldrei á meðan hún fær að stunda jóga og garðyrkju á meðan hún afplánar.“
Kona bætti við: „Hve lengi hún þarf að sitja inni nú ræðst af vini hennar Trump.“
Trump, sem nú stendur frammi fyrir stærstu pólitísku ógninni við forsetatíð sína, hefur dregið til baka loforð sitt um að birta opinber gögn um Epstein. Hann heldur nú fram að þau innihaldi ekkert og að málið sé tilbúningur, aðeins nokkrum vikum eftir að Elon Musk hélt því fram að nafn forsetans væri í skjölunum.
Þolendur Epstein hafa krafist þess að gögnin verði gerð opinber, studdir af milljónum Bandaríkjamanna, þar á meðal kjósendum Trump. Epstein lést í fangelsi árið 2019, en tveimur árum síðar var Maxwell sakfelld fyrir aðstoð við að misnota ungar stúlkur.
Nýlegar myndir sýna Maxwell ganga um fallega snyrta fangelsislóðina í Texas, oft með jógamottu undir handlegg. Hún heldur sig til hlés, í gráum fangabúningi, og fer ýmist í vinnu eða líkamsrækt. Heimildir segja að hún fari hvergi án regnhlífar sinnar, jafnvel ekki að næturlagi.
Camp Bryan, sem venjulega hýsir hvítflibbaglæpamenn og væga brotamenn, hefur nú breyst í „virki“ eftir komu Maxwell. 12 feta skjólveggir hafa verið reistir og sérsveit fangelsa vaktar svæðið með hálfsjálfvirkum riffilum og haglabyssum, sveit sem venjulega er aðeins kölluð út við uppþot eða gíslatökur.
Aðrir fangar segja að þeir séu að „borga fyrir syndir Maxwell“. Einum fanganum var jafnvel refsað harðlega fyrir að láta fjölskyldu sína senda smá athugasemd í fjölmiðla um Maxwell en hún var tafarlaust flutt í annað fangelsi í Houston.
Yfirvöld segja að flutningur Maxwell hafi verið „rútína“, en háttsettur embættismaður dómsmálaráðuneytisins hefur andmælt því og fullyrt að reglur hafi verið brotnar til að „þagga niður í henni“.
Maxwell, dóttir gjaldþrota auðkýfingsins Roberts Maxwell, vonast nú eftir forsetanáðun svo hún geti um frjálst höfuð strokið.
Bæði hún og Epstein tengdust frægum einstaklingum víða um heim, þar á meðal Andrési prins. Einn þolandinn, Virginia Giuffre heitin, hélt því fram að hún hafi verið neydd til að stunda kynlíf með Andrési þegar hún var 17 ára í íbúð Maxwell í London. Andrés hefur alltaf hafnað ásökunum og fullyrt í viðtali við BBC árið 2019 að hann muni ekki eftir að hafa hitt Maxwell.
Breski fjölmiðillinn Mirror fjallaði um málið en þar má sjá nýjar ljósmyndir af Maxwell á leið í jógatíma.
Komment