
Tilkynningum um kynferðisbrot til lögreglu fjölgaði umtalsvert á árinu 2025 samkvæmt nýrri skýrslu ríkislögreglustjóra. Alls voru 629 kynferðisbrot tilkynnt til lögreglu á árinu, sem jafngildir 13 prósenta aukningu frá árinu 2024. Æskulýðsrannsókn bendir þó til þess að kynferðisbrotunum fækki.
Í skýrslunni er bæði skráð hvenær brot átti sér stað og hvenær það var tilkynnt, þar sem oft líður langur tími á milli. Á árinu var tilkynnt um 194 nauðganir, þar af áttu 142 sér stað á árinu sjálfu. Tilkynningum um nauðganir fjölgaði um fimm prósent frá fyrra ári, en miðað við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan hefur þeim þó fækkað um sex prósent.
Sérstaka athygli vekur aukning kynferðisbrota gegn börnum. Alls voru 133 slík brot tilkynnt á árinu og hefur þeim fjölgað um 18 prósent miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Þá voru tilkynningar um barnaníð 51 talsins, sem er 53 prósenta aukning frá fyrra meðaltali.
Konur voru í miklum meirihluta brotaþola í öllum kynferðisbrotum, eða 83 prósent. Þegar horft er sérstaklega til nauðgana voru 92 prósent brotaþola kvenkyns. Hlutfall grunaðra var hins vegar yfirgnæfandi karlar, eða 93 prósent í tilkynntum kynferðisbrotamálum.
Skýrslan sýnir einnig töluverðan aldursmun milli brotaþola og grunaðra. Meðalaldur brotaþola var 23 ár en meðalaldur grunaðra 34 ár. Um 46 prósent brotaþola voru undir 18 ára aldri, á meðan aðeins 12 prósent grunaðra voru yngri en 18 ára. Í nauðgunarmálum voru 30 prósent brotaþola undir 18 ára, en hlutfall grunaðra undir 18 ára var áfram 12 prósent.
Tilkynningum um vændi fjölgaði verulega á milli ára, úr 29 málum árið 2024 í 69 mál árið 2025. Það jafngildir 138 prósenta aukningu milli ára og 245 prósenta aukningu miðað við meðaltal síðustu þriggja ára. Í skýrslunni kemur fram að slíkar sveiflur geti tengst aukinni frumkvæðisvinnu lögreglu og áherslum stjórnvalda á baráttu gegn skipulagðri brotastarfsemi.
Þrátt fyrir fjölgun tilkynninga benda sumar rannsóknir til þess að kynferðisbrotum fari fækkandi. Niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2025 sýna að hlutfall nemenda sem segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi fullorðins eða mun eldri einstaklings hefur lækkað verulega frá árinu 2023, bæði í 8. og 10. bekk. Einnig hefur fækkað þeim sem segjast hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi annars unglings.
Þolendakönnun lögreglunnar fyrir árið 2025 sýnir þó að stór hluti kynferðisbrota er aldrei tilkynntur. Af svarendum 18 ára og eldri sögðust 2,1 prósent hafa orðið fyrir kynferðisbroti árið áður, en aðeins tæplega 10 prósent þeirra tilkynntu brotið til lögreglu. Til samanburðar tilkynntu 42 prósent þeirra sem urðu fyrir ofbeldisbroti málið til lögreglu.

Komment