Matvælastofnun vill minna á að flugeldar og önnur skoteldanotkun geta valdið dýrum miklum ótta og jafnvel ofsahræðslu en greint er frá þessu í tilkynningu frá MAST.
„Hjá mörgum dýrum byggist hræðslan upp með tímanum og getur versnað frá ári til árs ef ekki er brugðist við. Mikilvægt er að dýraeigendur undirbúi dýrin sín vel og geri viðeigandi ráðstafanir til að draga úr vanlíðan og slysahættu á þessu tímabili,“ segir meðal annars í tilkynningunni.
„Almenn notkun skotelda er einungis heimil frá 28. desember til 6. janúar, og þá aðeins frá klukkan 10 að morgni til 22 að kvöldi, að nýársnótt undanskilinni, samkvæmt reglugerð um skotelda. Í reglugerðinni er jafnframt kveðið á um að sérstakt tillit skuli tekið til dýra og að notkun skotelda sé bönnuð í grennd við gripahús.“
Matvælastofnun hvetur almenning eindregið til að virða þessar reglur og takmarka skoteldanotkun við leyfilegan tíma, þar sem ófyrirsjáanleg læti utan hans geta haft alvarleg áhrif á dýr, bæði gæludýr og búfé.


Komment