1
Heimur

Flugvél á leið til Tenerife þurfti að nauðlenda

2
Fólk

Hafþór Freyr er Manneskja ársins

3
Heimur

Dolly Parton frávita af sorg

4
Innlent

Grunaður um að brjóta barnaverndarlög

5
Innlent

Eiríkur gagnrýnir Morgunblaðið fyrir „kvartsannleik“ um lífeyrisþega

6
Fólk

„Kópavogur hefur aldrei verið talinn neitt venjulegur“

7
Fólk

Rússi játaði ást sína á Ebbu í rútuferð í Bandaríkjunum

8
Landið

Pálmi Gestsson, fífldjarfur leigubílstjóri og Dimma í miklu uppáhaldi lesenda

9
Pólitík

Fjöldaráðning embættismanna

10
Fólk

Sólveig Anna fékk „gellumeðferð“ á Smartlandinu

Til baka

Rétta og ranga leiðin í áramótaheitum

Áramótaheit geta orðið eitruð þegar þau byggja á skömm, hörku eða óraunhæfum væntingum. Sálfræðingur mælir með að koma fram við sjálfan sig eins og góðan vin.

Styrkár Hallsson sálfræðingur . Áramótaheit
Styrkár HallssonSálfræðingurinn segir lykilatriði að bera umhyggju fyrir sjálfum sér í strengingu áramótaheita, frekar en að drífa sig áfram með skömm.
Mynd: Golli

Áramótaheit geta orðið eitruð þegar þau byggja á skömm, hörku eða óraunhæfum væntingum. Sálfræðingur mælir með að koma fram við sjálfan sig eins og góðan vin.

Margir strengja áramótaheit svo sem í tengslum við hreyfingu og mataræði. Allt er best í hófi og í sumum tilfellum getur fólk orðið fyrir vonbrigðum þegar árangur næst ekki og ekki er hægt að fylgja áramótaheitinu. Styrkár Hallsson sálfræðingur segir að sjálfsumhyggja og mildi sé mikilvægur hlekkur í markmiðum almennt en dómharka í eigin garð geti gert það að verkum að fólk gefst upp og hættir að reyna.

Áramótaheit geta verið saklaus og hjálpleg fyrir suma en þau geta líka hæglega reynst vafasöm þegar þau byggja á skömm, dómhörku eða óraunhæfum væntingum. Þau geta auðveldlega aukið á samanburð við aðra, óánægju með líkamann og þá tilfinningu að viðkomandi eigi að breyta sér jafnvel þótt það samræmist ekki gildum eða þörfum viðkomandi.

Hvetjandi og styðjandi

Styrkár Hallsson, sálfræðingur hjá Sálfræðingarnir ehf., telur að áramótaheit tengist að einhverju leyti þeim tímamótum sem verða í lífi fólks og virðast kalla á þörf fyrir að gera breytingar. Slík tímamót geta þá átt við um áramót en einnig aðra lífsviðburði svo sem í kringum afmæli, brúðkaup eða eftir stórar breytingar í lífinu sem geta skapað línu á milli „gamla lífsins“ og einhvers konar „nýs upphafs“.

„Ég held að fólk sé oftar en ekki að fjarlægja sig frá einhverju sem því fannst fara miður eða fannst ekki ganga nógu vel. Þetta getur snúið að einhverju sem það upplifir sem vonbrigði en einnig eitthvað sem það vill bæta. Þannig að ég held að áramótaheit snúist gjarnan um það að fólk er að endurspegla eitthvað misræmi í því sem er í lífinu núna eða hefur verið og því hvernig það vill að lífið sé í framhaldinu.“

Hvetjandi og styðjandi

Styrkár segir að sjálfsumhyggja og mildi sé almennt mikilvægur hlekkur í markmiðum af því að dómharka í eigin garð gerir það oft að verkum að fólk gefst upp og hættir að reyna.

„Niðurrif og dómharka geta einnig hæglega ýtt undir „svarthvítan hugsunarhátt“ sem leiðir til þess að þegar illa gengur þá afskrifar fólk jafnvel allt og finnst áramótaheitið ónýtt og hættir að reyna. Afleiðingin af því geta verið niðurrifshugsanir og vonbrigði sem jafnvel ýta manni lengra frá því að reyna að ná settu markmiði. Þetta getur jafnvel orðið að vítahring óraunhæfra markmiða, frestunar og sjálfsniðurrifs. Gott er að hafa í huga að við erum í grunninn frekar ófullkomnar verur; við erum öll takmörkuð að einhverju leyti og það getur ýmislegt komið upp á í lífinu. Þannig að ég held að það sé mikilvægt að fólk hugsi meira um það sem er hvetjandi og styðjandi gagnvart sjálfu sér. Maður getur spurt sig hvernig „myndi ég hvetja góðan vin áfram“, líklega ekki með niðurrifi og skömm heldur með hvatningu og sveigjanleika fyrir mistökum viðkomandi.“

Styrkár segist ennfremur halda að þegar komi að umræðu um áramótaheit og ef fólk er að velta því fyrir sér að strengja áramótaheit þá sé einnig mikilvægt að horfa til þess hvað sé á valdi þess sjálfs. „Líðan er til dæmis ekki alltaf viljastýrð að öllu leyti þannig að fólk sem er til dæmis að glíma við kvíða getur verið að setja sér áramótaheit um að líðanin verði betri eða það ætli sér að losna undan kvíðanum. En stundum eru hlutir eða aðstæður ekki alveg fyllilega á okkar valdi og ýmislegt getur gerst í lífinu eins og áföll sem geta sett strik í reikninginn þegar fólk er að reyna að vinna að einhverjum markmiðum. Áramótaheit geta þá til að mynda aukið jafnvel á sjálfsásakanir hjá fólki sem glímir við geðræn vandamál, ýtt undir skömm ef líðan batnar ekki og því líður eins og því hafi mistekist. Áramótaheit í slíkum tilfellum ættu þá kannski frekar að snúa að því „hvernig get ég betur hlúð að mér“ svo sem að setja mér áramótaheit um að biðja um aðstoð eða leita mér hjálpar þegar ég þarf þess.“

Áramótaheit snúast ekki endilega bara um hegðun heldur sjálfsmynd og gildi eins og Styrkár nefndi - að vinna að bættu líkamlegu og andlegu heilbrigði, vera skipulagðari og vinna að jákvæðara hugarfari eða vera meira til staðar fyrir aðra.

Styrkár Hallsson sálfræðingur . Áramótaheit

Sveigjanleiki og samkennd að leiðarljósi

„Þótt að eitthvað gangi ekki eins og viðkomandi hafði séð fyrir sér þá er það ekki endilega einhver veikleiki eða brestur. Það getur margt spilað þar inn í. Við erum öll manneskjur og maður ætti frekar að nálgast það af forvitni og skoða hvað spilaði inn í. Streita eða álag á öðrum sviðum getur til dæmis auðveldlega truflað önnur markmið. Þetta kemur beint inn á sveigjanleikann og mildina í eigin garð. Margir mistúlka það að sýna sér mildi sem eitthvað neikvætt eða að maður sé að gefa sér leyfi. Þeir gleyma því að undir mildi eða samkennd í eigin garð fellur nefnilega sjálfsvirðing, að sjá það mannlega í eigin hegðun, gangast við og að hvetja sig áfram eins og góðan vin.“

„Streita eða álag á öðrum sviðum getur til dæmis auðveldlega truflað önnur markmið“

Gott er ef áramótaheit hafa einhvern aðdraganda og sé undirbúið. „Þess vegna held ég að það sé heilbrigðara og meiri skynsemi í að áramótaheit miði að einhverjum gildum og einhverju sem viðkomandi vill bæta sig í í lífinu og að meiri áhersla sé lögð á líðanina sjálfa heldur en einhverja lokaútkomu. Þannig að í staðinn fyrir að einhver segist ætla að grennast eða bæta á sig vöðvamassa þá gæti viðkomandi frekar sagst ætla að styrkja líkamann með næringu og hreyfingu. Það hljómar öðruvísi og dregur kannski úr skömm og býður upp á aðeins meiri sveigjanleika.“

Umræðan skiptir máli

Styrkár neitar því ekki að áramótaheit geta verið böl. „Þetta er kannski ekki vandamál í sjálfu sér en þau verða klárlega varasöm þegar þau byggja til dæmis á skömm, hörku eða óraunhæfum væntingum. Þau geta aukið á samanburð við aðra, óánægju með líkamann og þá tilfinningu að viðkomandi eigi að breyta sér jafnvel þótt það samræmist ekki gildunum eða þörfunum.“

Umræðan um að koma sér í form sprettur upp eftir jól og í kringum áramót. „Þetta er ekki bara á Íslandi heldur er þetta líka þekkt fyrirbæri erlendis. Þetta magnar upp samfélagslegan þrýsting. Ég held að við sem samfélag gleymum því mjög oft að samtal um áramótaheit og kannski markmið almennt getur verið viðkvæmt og ekki síst þegar þetta snertir þætti sem eru oft hlaðnir skömm og kalla á samanburð og jafnvel tengjast persónulegri reynslu. Mér finnst skipta máli hvernig samfélagið, fjölmiðlar og bara fólk almennt nálgast þessa umræðu og að hún sé sett fram af meiri næmni fyrir því að við getum öll haft einhverja reynslu þar sem þetta getur haft áhrif á okkur.“

Það getur til dæmis myndað þrýsting ef fólk er spurt hvort það ætli ekki að strengja áramótaheit varðandi ákveðin atriði. „Áramótaheit snúast mjög oft um þyngd og ekki þarf að fara nánar út í hvernig það getur búið til óheilbrigða umræðu og áherslur í samfélaginu. Þau geta líka snúist um önnur viðfangsefni sem geta reynst viðkvæm svo sem ef áramótaheit snúa að fjármálum en það getur snert á skömm, félagslegum samanburði og ýtt undir kvíða hjá fólki í erfiðri stöðu. Það sem er kannski hvetjandi hjá einum gæti auðveldlega valdið vanlíðan hjá öðrum og virkað sem einhvers konar kveikja fyrir neikvæðar hugsanir og vanlíðan.

Það breytir því ekki að auðvitað höfum við frelsi til þess að setja okkur þau markmið sem við viljum og að tjá það við fólkið okkar opinskátt. Það getur líka skapað meðbyr og virkað hvetjandi. Engu að síður þurfum við sem samfélag að fara varlegar í þetta. Áramótaheit geta búið til pressu og ýtt undir einhver óheilbrigð viðmið í þeim efnum.“

Styrkár bendir á að í sumum tilfellum geta áramótaheit farið í hina áttina svo sem þegar viðkomandi ætlar að hreyfa sig minna, fara sér hægar og taka sér tíma til að slaka á, eiga fleiri stundir með makanum og draga úr álagi í vinnu. „Áramótaheit þurfa ekkert endilega að vera árangursdrifin og í áttina að því að ná einhverju takmarki eða eignast pening eða grennast. Öfgar eru sjaldnast til þess fallnar að ná yfir langan tíma.“

Gildi mikilvæg

Sjálfur segist Styrkár ekki strengja áramótaheit. „Ég reyni meira að fylgja ákveðnum gildum sem manneskja svo sem að vera góð manneskja. Reyni að láta gott af mér leiða og vera sanngjarn, heiðarlegur og gott foreldri. Þannig að ég reyni alla jafna að hafa þau gildi að leiðarljósi en hef á sama tíma sveigjanleika fyrir því að vera mennskur, geta gert mistök eins og aðrir og vera ófullkominn. Það allavega hentar mér betur en að gera þetta að einhverjum heitum á tímamótum,“ segir hann.

„Mér finnst vera svo margt jákvætt við orðið gildi. Þau beinast oft einmitt að einhverju sem við viljum temja okkur út lífið; þetta er ekki endilega markmið sem við náum. Þetta er eitthvað sem ég vil hafa að leiðarljósi svo lengi sem ég er til.“

Styrkár véfengir með þessu gagnsemi áramótaheita að einhverju leyti. „Það þurfa ekki að vera áramót til að ætla að gera einhverjar breytingar til hins betra í lífinu. Það getur komið að gagni að fara til sálfræðings eða tala við fólk sem viðkomandi treystir og nota meðbyrinn og finna leiðirnar. Ég held að það sé góður punktur að lokum.“

Kjósa
Hvernig finnst þér þessi grein? Skrá inn til að kjósa

Styrkja Mannlíf

Má bjóða þér að styrkja starfsemi Mannlífs með mánaðarlegu framlagi?


Komment

Djammáramótin standa upp úr hjá Rakel
Fólk

Djammáramótin standa upp úr hjá Rakel

„Þá snerust áramótin um að finna góð partý og djamma sem lengst“
Glæpir, harmleikir og kaupmáli í brennideplinum á árinu
Innlent

Glæpir, harmleikir og kaupmáli í brennideplinum á árinu

Áramótabjórinn hennar Dóru sprakk í 30 stiga frosti
Fólk

Áramótabjórinn hennar Dóru sprakk í 30 stiga frosti

Sólveig Anna fékk „gellumeðferð“ á Smartlandinu
Fólk

Sólveig Anna fékk „gellumeðferð“ á Smartlandinu

Fjöldaráðning embættismanna
Pólitík

Fjöldaráðning embættismanna

Hafþór Freyr er Manneskja ársins
Fólk

Hafþór Freyr er Manneskja ársins

Eiríkur gagnrýnir Morgunblaðið fyrir „kvartsannleik“ um lífeyrisþega
Innlent

Eiríkur gagnrýnir Morgunblaðið fyrir „kvartsannleik“ um lífeyrisþega

Pálmi Gestsson, fífldjarfur leigubílstjóri og Dimma í miklu uppáhaldi lesenda
Landið

Pálmi Gestsson, fífldjarfur leigubílstjóri og Dimma í miklu uppáhaldi lesenda

„Kópavogur hefur aldrei verið talinn neitt venjulegur“
Fólk

„Kópavogur hefur aldrei verið talinn neitt venjulegur“

Flugvél á leið til Tenerife þurfti að nauðlenda
Heimur

Flugvél á leið til Tenerife þurfti að nauðlenda

Fólk

Djammáramótin standa upp úr hjá Rakel
Fólk

Djammáramótin standa upp úr hjá Rakel

„Þá snerust áramótin um að finna góð partý og djamma sem lengst“
„Kópavogur hefur aldrei verið talinn neitt venjulegur“
Fólk

„Kópavogur hefur aldrei verið talinn neitt venjulegur“

Rétta og ranga leiðin í áramótaheitum
Úttekt
Fólk

Rétta og ranga leiðin í áramótaheitum

Áramótabjórinn hennar Dóru sprakk í 30 stiga frosti
Fólk

Áramótabjórinn hennar Dóru sprakk í 30 stiga frosti

Sólveig Anna fékk „gellumeðferð“ á Smartlandinu
Fólk

Sólveig Anna fékk „gellumeðferð“ á Smartlandinu

Hafþór Freyr er Manneskja ársins
Fólk

Hafþór Freyr er Manneskja ársins

Loka auglýsingu