
Karlmaður búsettur í Reykjavík hefur verið dæmdur í fangelsi af Héraðsdómi Reykjavíkur.
Hann var ákærður fyrir þjófnað úr Elko, Krónunni, Smash Urban, Gallerí 17, Hagkaupum og ÁTVR. Þá var hann einnig ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa aðfaranótt laugardagsins 5. apríl 2025, utan við skemmtistaðinn Dillon í Reykjavík, haft í vörslum sínum ísöxi, sem lögregla haldlagði við handtöku ákærða.
Maðurinn játaði sök en hélt því fram að ástæða þess að hann hefði verið með exi væri sú að hann hefði verið undir áhrifum áfengis og vímuefna og talið öryggi sínu ógnað. Hann hafi ekki ætlað sér að beita exinni og hafi ekki beitt henni gegn nokkrum manni.
Þjófurinn hefur ítrekað áður gerst brotlegur, meðal annars fyrir líkamsárás.
Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi. „Fullnustu þriggja mánaða af þessum sex mánuðum er frestað og falli hún niður að liðnum tveimur árum,“ segir í dómnum.
Komment