
Íran mun bregðast tafarlaust við ákvörðun Evrópusambandsins um að skilgreina byltingarvarðlið landsins, IRGC, sem hryðjuverkasamtök. Þetta segir Ali Shamkhani, einn helsti öryggisfulltrúi Írans og fulltrúi æðsta leiðtoga landsins, Ayatollah Ali Khamenei, í nýstofnuðu æðsta varnarráði landsins.
Í færslu á samfélagsmiðlinum X í dag gagnrýndi Shamkhani vestræn ríki harðlega og sagði þau ekki skilgreina hryðjuverk heldur „nota“ hugtakið í pólitískum tilgangi. Hann sakaði Bandaríkin og Evrópu um tvöfalt siðgæði og vísaði til stuðnings þeirra við hernað Ísraels á Gaza á sama tíma og barátta IRGC gegn hryðjuverkasamtökunum ISIL (ISIS) sé stimpluð sem hryðjuverkastarfsemi.
Samkvæmt Shamkhani sýnir ákvörðun ESB hvernig hugtakið „hryðjuverk“ hafi verið „afbakað“, og bætti hann við að viðbrögð Írans yrðu tafarlaus. Shamkhani gegndi stöðu framkvæmdastjóra æðsta þjóðaröryggisráðs Írans á árunum 2013 til 2023.
Minnir á aðdraganda Íraksstríðsins
Á sama tíma hefur Mohamed ElBaradei, fyrrverandi forstjóri Alþjóðakjarnorkumálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (IAEA), varað við vaxandi hernaðarhótunum í garð Írans. Hann segir orðræðuna minna óþyrmilega á aðdraganda Íraksstríðsins árið 2003.
Í færslu á X sagði ElBaradei að áframhaldandi einhliða hótanir um hernað gegn Íran, án þess að „skýr og yfirvofandi ógn“ sé til staðar og í trássi við alþjóðalög, endurómi „sömu myrku sviðsmyndina og fyrir hið ólöglega og siðlausa Íraksstríð“.
„Mannslíf og eyðilegging heilla svæða virðast engu skipta máli,“ skrifaði ElBaradei og bætti við: „Við lærum aldrei.“

Komment