
Athafna- og veitingamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson er farinn í meðferð til að losa sig við áfengisneyslu.
„Ég er að fara í meðferð vegna áfengisvanda sem hefur tekið of mikið pláss í lífi mínu og haft neikvæð áhrif á samskipti og ákvarðanir síðastliðin tvö ár,“ segir hann á samfélagsmiðlum sínum.
„Áfengi er hætt að vera gleðigjafi og ég hef notað það sem flóttaleið í stað þess að nálgast það af gleði og hvað þá hófsemi. Flóttaleiðirnar með áfengi hafa verið margvíslegar og engar af þeim leiðum hafa verið farsælar. Það hefur hvorki verið farsælt né heilsusamlegt, og því er þetta skref bæði rétt og tímabært.“
Sigmar opnar sig um málið til að forðast kjaftasögur. „Ég er að deila þessu með ykkur hér til að hlífa mínum nánustu frá því að verða upplýsingafulltrúar mínir næstu 6 vikurnar og vonandi að koma í veg fyrir að það komi fram kjaftasögur um mig sem mitt nánasta fólk sér sig knúið til að leiðrétta.“
Hann stendur með ákvörðun sinni. „Ég er stoltur af þessari ákvörðun. Hún er tekin fyrir heilsuna mína, mína nánustu og framtíðina.“
Þá sendir hann fyrirfram þakkir fyrir stuðninginn. „Eina sem ég bið um er virðing fyrir einkalífinu á meðan. Og ég þakka af öllu hjarta fyrir stuðninginn sem mér verður eflaust sýndur.“
Sigmar vakti nokkra athygli þegar hann sagði frá því að hann hefði verið stöðvaður af lögreglu við akstur undir áhrifum.
Árið 2023 seldi hann Ölmu leigufélagi húsið sitt í Mosfellsbæ. Hann hafði boðað að hann hefði ákveðið að lifa bíllausum lífsstíl. Síðar sagði hann frá því að hann hefði stundað ölvunarakstur, grandalaus. „„Þetta er þannig, ég ætla ekki að segja að ég hafi talið þá, en þetta voru þrír til fimm bjórar á þriðjudagskvöldi heima hjá mér, og ég er að elda og fæ mér bjór yfir matnum, elda, borða og horfi á leikinn. Við erum að tala um lítinn dósabjór, ekkert mál, þannig var kvöldið,“ sagði hann, en kvöldið fór illa þegar varðkerfi Securitas fór í gang í Minigarðinum og hann taldi sig knúinn til aksturs, grunlaus um að hann væri í ölvunarástandi þegar hann var stöðvaður á Miklubrautinni við reglubundið eftirlit.
Nú er Sigmar hins vegar á beinu brautinni.
Komment