
Anna Kristjánsdóttir, vélstjóri og húmoristi, er komin í fýlu. Ástæðan er sú að Evrópumótið í handbolta karla eyðileggur fyrir henni sjónvarpsdagsskránna.
Anna kvartar undan EM í handbolta í nýjustu dagbókarfærslu sinni á Facebook, en hún hafði hugsað sér að horfa á Útsvar og Spaugstofuna.
„Nú er ég komin í fýlu. Áður auglýstri sjónvarpsdagskrá dagsins í dag hefur verið kastað útaf borðinu og stað þess að fá að njóta þess að sjá Hreppana keppa (Útsvar) frá 2016 og Spaugstofuna frá því veturinn 2009 er kominn einhver fótboltaleikur, afsakið handboltaleikur milli tveggja ókunnra þjóða og til að bæta gráu ofan á svart er líka búið að taka Gísla Martein af dagskránni, bara út af öðrum handboltaleik.“
Vélstjórinn hefur yfir öðru að kvarta en að sögn Önnu nennir enginn að drekka með henni í kvöld, því stefni allt í kojufyllirí hjá henni.
„Að auki vill enginn drekka með mér í kvöld af því að allir Íslendingarnir ætla að horfa á einhvern landsleik í handbolta á Nostalgíu (Klausturbar) eða Smoke bro´s (St Eugens). Það stefnir í kojufyllerý hjá mér því ekki get ég gert Íslendingum þann óleik að horfa á umræddan leik og valda þar með því að Íslendingarnir tapi fyrir Dönum.“
Anna minnist þess einnig í færslunni er hún hlustaði á beina útsendingu frá knattspyrnuleik árið 1967.
„Ég er þess enn minnug er ég hlustaði á beina útsendingu í útvarpinu frá fótboltaleik á Parken í ágúst 1967 þar sem Íslendingar töpuðu fyrir Dönum með fjórtán mörkum gegn tveimur. Ég er þegar búin að gera sænsku strákunum mínum þann óleik að horfa á þá tapa fyrir Íslendingum án þess að flagga sænska fánanum.“

Komment