
Samkvæmt einum þeirra þingmanna sem þrýsta á um birtingu mynda og skjala úr Epstein-málunum var afmælisdagur hans lítið annað en enn eitt tilefni til að misnota ungar konur.
Hinn látni barnaníðingur hefði orðið 73 ára í gær, og segir bandaríski þingmaðurinn Suhas Subramanyam, demókrati frá Virginíu og nefndarmaður í eftirlitsnefnd fulltrúadeildarinnar, í samtali við TMZ að afmælisdagur Epstein sé „líklega mjög erfiður dagur fyrir margar konur“.
Afmæli Epstein hafa verið í brennidepli í svokölluðum Epstein-skjölum. Þar kemur meðal annars fram að Ghislaine Maxwell hafi sett saman bók í tilefni af 50 ára afmæli hans, með bréfum frá frægum vinum hans, þar á meðal klámfengið bréf sem á að hafa komið frá Donald Trump, sem hefur neitað því að hafa skrifað það.
Subramanyam hefur áður sagt að tími sé kominn til að „nefna nöfn“ í skjölunum, en hingað til hefur birting gagna verið afar hæg, þrátt fyrir að lögbundinn skilafrestur hafi runnið út fyrir meira en mánuði síðan.
Þingmaðurinn segir skýra ástæðu fyrir áherslunni á afmæli Epstein og bætir við:
„Það er ljóst af sönnunargögnum að Epstein notaði afmælisdaginn sinn sem afsökun til að fremja mansal og misnota stúlkur.“
Í þeim hluta Epstein-skjala sem þegar hefur verið birtur eru meðal annars myndir af Epstein ásamt þremur ungum konum þar sem þau fagna 54 ára afmæli hans. Konurnar klæðast allar kjólum með tölunni 54 prentaðri á bakið.
Einnig hafa komið fram myndir af Epstein þar sem hann situr við borð með tveimur öðrum einstaklingum og afmælistertu. Hann er í sömu peysu og á myndunum með konunum, en óljóst er hverjir sitja með honum þar sem andlit þeirra hafa verið afmáð.

Komment