
Þrír eru látnir eftir skotárás í smábæ í Nýja Suður-Wales í Ástralíu, þar sem lögregla hefur hafið umfangsmikla aðgerð til að hafa uppi á meintum byssumanni.
Tvær konur og einn karl létust eftir að hafa verið skotin á Walker-stræti, nærri Yelkin-stræti, í Lake Cargelligo í mið-vesturhluta fylkisins, um klukkan 16.40 í dag. Annar karlmaður var fluttur í skyndi á sjúkrahús og er í alvarlegu en stöðugu ástandi.
Lögregla segir að lögreglumenn frá Central-West lögregluumdæminu hafi verið kallaðir á vettvang eftir tilkynningar um skotárás. Talið er að hinn grunaði byssumaður hafi verið með nálgunarbann á sér og hafi flúið af svæðinu á ökutæki í eigu sveitarfélagsins.
Almenningi hefur verið ráðlagt að forðast svæðið og íbúum bæjarins sagt að halda sig innandyra á meðan aðgerðir standa yfir. Lögregla segir að frekari upplýsingar verði birtar um leið og þær liggja fyrir.
Lake Cargelligo er lítill bær, um þremur klukkustundum aksturs suðvestur af Dubbo. Þar búa um 1.500 manns og bærinn er einkum þekktur fyrir vatnaíþróttir á borð við siglingar, kajaksiglingar, vatnaskíði og sund.
Íbúi bæjarins, Manisha, sem ekki vildi gefa upp eftirnafn sitt, sagði í samtali við dagblaðið The Daily Telegraph í Sydney að lögreglubílar og sjúkrabílar væru „út um allan bæ“.
„Bærinn samanstendur af aðeins tveimur aðalgötum. Við heyrum hljóðin,“ sagði hún og vísaði til sírena. Þingmaður fylkisins, Roy Butler, lýsti skotárásinni sem „hörmulegum tíðindum“ fyrir bæinn, sem er í um 600 kílómetra fjarlægð vestur af Sydney.
„Þetta er hræðileg staða og málið er enn í gangi, þannig að við höfum ekki miklar upplýsingar. Hugur minn er hjá fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra,“ sagði Butler í samtali við ástralska ríkisútvarpið ABC.
Skotárásin átti sér stað á þjóðlegum sorgardegi, þar sem Ástralar minnast þeirra 15 sem voru skotnir til bana í Sydney við Chanukka-hátíð þann 14. desember. Yfirvöld segja að tveir meintir byssumenn í Sydney hafi verið innblásnir af hryðjuverkasamtökunum sem kennd eru við Íslamska ríkið, og að árásin hafi verið sú mannskæðasta í Ástralíu síðan 1996.
Ástralska þingið samþykkti á þriðjudag nýjar takmarkanir á skotvopnaeign í kjölfar harmleiksins.

Komment