
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, baráttukona og fyrrverandi formaður Trans Íslands, gagnrýnir harðlega áform stjórnvalda um að setja á fót svokallaða „brottfararstöð“ fyrir hælisleitendur og fólk á flótta. Í Facebook-færslu sinni segir hún hugmyndina í reynd jafngilda frelsissviptingu fólks sem hafi ekki framið neinn glæp.
„Það er ekki glæpur að koma hingað í leit að betra lífi, eða til að flýja stríð eða ofsóknir. Samt sem áður er svokölluð „brottfararstöð“ sem stjórnvöld hyggjast setja á fót lítið annað en fangelsi. Fangelsi þar sem fullorðnir og börn eru svipt frelsi sínu fyrir þar eitt að vera á flótta eð sækja hér um hæli,“ skrifar Ugla.
Hún segir að mannréttindasjónarmið liggi skýr fyrir þegar frumvarpið sé skoðað og bendir á að faglegar umsagnir styðji þá niðurstöðu. „Það er öllum augljóst sem lesa frumvarpið út frá mannréttindasjónarmiði, og eru umsagnir frá sérfræðingum og góðgerðarsamtökum sem vinna í þessum málaflokki afgerandi,“ segir hún.
Ugla hafnar alfarið þeirri hugmynd að um mannúðaraðgerð sé að ræða og segir orðræðuna afmennskandi. „Hér er ekki að ræða um neina mannúð, bara meiri hörku, andúð og mismunun í nafni „tiltektar“ – eins og fólk séu bara einhverjir hlutir og drasl sem við getum troðið ofan í skúffu eða hent í ruslið,“ skrifar hún.
Sérstaklega gagnrýnir hún stjórnmálaflokka sem skilgreina sig sem mannréttindasinnaða fyrir að styðja slíkar aðgerðir. „Að flokkar sem kenni sig við mannréttindi telji þetta ásættanlegt er einhver brenglaður brandari,“ segir Ugla.
Að lokum varar hún við afleiðingunum fyrir samfélagið í heild ef samþykkt verði að skerða réttindi eins hóps. „Um leið og við samþykkjum að brotið sé á réttindum eins hóps eða þrengt að þeim, þá samþykkjum við að mannréttindi séu umsemjanleg, frávíkjanleg og háð geðþótta stjórnvalda. Þá fyrst er voðin vís í lýðræðislegu samfélagi.“

Komment