
Erfiðir tímar eru hjá fjölskyldu Mick Jagger um þessar mundir, en nú stendur yfir umfangsmikil leit að maka barnabarns hans, sem hvarf sporlaust í Cornwall á Englandi fyrir helgi.
Alexander Key, 37 ára matreiðslumaður sem Assisi Jackson, barnabarn Jagger hefur verið í langtímasambandi með, sást síðast síðdegis á föstudag á kránni Cobweb Inn í þorpinu Boscastle um klukkan 14:30. Upptökur úr eftirlitsmyndavélum sýna að hann yfirgaf staðinn um klukkustund síðar. Þegar ekkert hafði til hans spurst var tilkynnt um hvarf hans til lögreglunnar í Devon og Cornwall á laugardagskvöld, samkvæmt The Telegraph.
Móðir Assisi, skartgripahönnuðurinn Jade Jagger, dóttir Mick Jagger og Bianca Jagger, hefur birt myndir af Alexander á samfélagsmiðlum í von um að fá upplýsingar um ferðir hans. Á myndunum sést hann klæddur skærappelsínugulum jakka og með ljósbleikt, aflitað hár.
Alexander, sem á tvær ungar dætur með Assisi, er sagður meðalbyggður. Lögregla segir að vaxandi áhyggjur séu af velferð hans og að leit hafi verið útvíkkuð um allt svæðið.

Komment