
Hermann Nökkvi Gunnarsson, framkvæmdastjóri SUS og blaðamaður Morgunblaðsins, er gestur í nýjasta hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar. Ræða þeir félagar ýmislegt og má meðal annars nefna Trump, slaufunarmenningu og hvernig hann byrjaði í blaðamennsku.
„Ég auðvitað hvet fólk til að mennta sig ef það vill, en á sama tíma er menntun ekki allt og við eigum að meta reynslu fólks af lífinu líka,“ segir Hermann í samtali við Sölva.
„Þó að ég sé ennþá ungur hef ég unnið alls konar önnur störf og það hefur gefið mér innsýn inn í líf venjulegs fólks. Við verðum alltaf að vera á tánum í að bæta okkur, halda áfram að vera forvitin og festast ekki í einhverjum pól hugmyndafræði. Þó að ég sé almennt hægra megin við línuna sé ég sumt það sem er að gerast í Bandaríkjunum sem skort á prinsipum sem hægra fólk ætti að hafa. Það að ríkið sé að þagga niður í röddum er aldrei gott, sama hvort það kemur frá hægri eða vinstri,“ heldur Hermann áfram.
„Að sama skapi eiga þeir sem eru innilega á móti slaufunarmenningu að halda sig við þau prinsipp, þó að núna gæti verið möguleiki á að slaufa vinstra fólki í ákveðnum tilvikum af því að pendúllinn hefur verið að snúast. Við eigum aldrei að slaufa fólki fyrir skoðanir sínar og allra síst á ríkið að vera að stjórna því hvaða tjáning er leyfileg og hvaða tjáning ekki. Þú vilt til dæmis ekki gefa stjórnvöldum óheft leyfi til að skilgreina hvað er hatursorðræða, af því að það er svo stutt í að allt það sem þú ert ósammála sé þá bara orðið að hatursorðræðu. Fólk sem hefur verið að tala fyrir slaufunum og skerðingu á tjáningarfrelsi vinstra megin við línuna ætti að sjá viðvörunarbjöllurnar í þeirra eigin reglum núna þegar pendúllinn er að snúast. Við ættum alltaf að tryggja það að tjáningarfrelsið sé öruggt hverju sinni, alveg sama hver er við stjórnvölinn.“

Komment