
Hera Gísladóttir, heilsumarkþjálfi og stjörnuspekingur, segist einlæglega trúa því að allt í lífinu hafi þýðingu.
Að hennar mati leiðir dýpri sjálfsskoðun á hegðun okkar til þess að við áttum okkur betur á eigin ábyrgð og getum meðvitað valið viðbrögð okkar. Hera, sem er nýjasti gestur í hlaðvarpi Sölva Tryggvasonar, segir að hún hafi frá unga aldri litið á lífið þannig að allar athafnir hafi afleiðingar og því sé mikilvægt að lifa í meðvitund.
„Ég var mjög ung þegar ég fór að hugsa hlutina þannig að öll smáatriði skipti máli. Það skiptir allt máli í því hvernig við hegðum lífi okkar og hvað við gerum frá degi til dags. Hvort sem við köllum þetta karma eða eitthvað annað er það bara þannig fyrir mér að litlu atriðin í því hvernig við komum fram skipti miklu máli. Þegar ég fer í Bónus og tek vöru úr hillunni vil ég skila henni á réttan stað og í mínum huga er alltaf orsök og afleiðing í öllu. Ég legg líka mikið upp úr því að taka til í kringum mig og hafa umhverfi mitt í röð og reglu, af því að það endurspeglar innra ástand okkar. Núna er ég að æfa mig í að vera bein í baki, af því að líkamsstaðan okkar skiptir máli og líkaminn og boðefnakerfið eru að hlusta á það hvernig við berum okkur. Ég sé þetta þannig að við séum hluti af einhverri stærri heild og að allt sem við gerum hér á jörðinni skipti máli.“
Byrjaði að vinna 11 ára
Hera segist afar þakklát fyrir uppeldið sitt, sem einkenndist af nægjusemi og því að hafa lítið á milli handanna, en hún þurfti að fara snemma út á vinnumarkaðinn og vinna fyrir sér ung að árum.
„Ég ólst upp við lítið, sem kenndi mér að vera nægjusöm og þakklát. Mamma og pabbi skildu og á tímabili var staðan þannig að við vorum bara alltaf að borða afganga og höfðum úr litlu að moða. En mamma mín er þannig gerð að hún náði alltaf að búa til ævintýri úr þessu og kenndi okkur að sjá það jákvæða í öllu. Hún sá alltaf sólina frekar en skýin og í gegnum hana lærði ég að það er alltaf hægt að velja viðbragð í lífinu og velja með hvaða gleraugum við sjáum hlutina. Við veljum ekki alltaf hvað kemur fyrir okkur, en við getum alltaf valið hvernig við bregðumst við. Með aukinni meðvitund verður maður betri og betri í að læra að velja viðbragð. En það að alast upp við lítið kenndi mér hluti og ég er þakklát fyrir það. Ég fór mjög ung að vinna í fiski. Ég var líklega 11-12 ára gömul þegar ég byrjaði að vinna í humarvinnslu og svo fiskvinnslu. Ég stóð upp á bastkörfu í vinnunni af því að ég var svo lítil. Svo þegar ég stóð mig vel fékk ég að vinna þar sem humarinn var nýkominn úr frystinum. Þar voru minni pásur, en maður fékk meira borgað. En puttarnir voru nánast frosnir af því að humarinn var svo kaldur. Þannig að ég lærði í raun að það þyrfti að vera sársaukafullt að fá meiri pening. Sem mér finnst í raun röng skilyrðing í dag, af því að peningar eru bara orka og flæði og maður á ekki að þurfa að beita sig hörðu til að fá pening. En þrátt fyrir þessar skilyrðingar hef ég alltaf upplifað mig sem nóg og hef ekki þjáðst af því að finnast ég ekki eiga allt gott skilið“
Hera og Ásgeir Kolbeinsson hafa verið par í yfir tíu ár og eiga einn son saman. Þau standa saman að rekstri fyrirtækisins Orkugreiningar og stýra einnig vinsælu hlaðvarpi ásamt stjörnuspekingnum Gunnlaugi Guðmundssyni. Hera lýsir djúpu þakklæti í garð Ásgeirs og segir samband þeirra byggjast á traustum grunni gagnkvæms stuðnings og virðingar.

Komment