
Breska lögreglan hefur tilkynnt að 14 börn á aldrinum 11 til 14 ára hafi verið handtekin í bæ í norðausturhluta Englands eftir að unglingsdrengur lést í eldsvoða á iðnaðarsvæði.
Ellefu drengir og þrjár stúlkur voru handtekin grunuð um manndráp, samkvæmt yfirlýsingu lögreglunnar í Northumbria sem gefin var út seint á laugardag. Fórnarlambið var 14 ára gamall drengur að nafni Layton Carr, en lík hans fannst inni í byggingu í Gateshead, nálægt Newcastle, en lýst hafði verið eftir honum síðan á föstudag.
„Því miður fundust líkamsleifar, sem talið er að séu af hinum 14 ára gamla Layton Carr, inni í byggingunni,“ sagði talsmaður lögreglu. Lögregla fékk tilkynningu um eldinn á föstudagskvöld og sagði að rannsóknin væri enn á frumstigi.
„Þetta er afar sorglegur atburður þar sem drengur hefur því miður látist,“ sagði yfirrannsóknarlögreglumaðurinn Louise Jenkins.
Íbúar í nágrenninu sögðu við BBC á sunnudag að unglingar og börn brytu sér oft leið inn á iðnaðarsvæðið.
Komment