
Krónan og viðskiptavinir verslanakeðjunnar söfnuðu samtals 10 milljónum króna í árlegri jólasöfnun sem fram fór í byrjun desember. Fjármunirnir munu nýtast um 500 fjölskyldum víðs vegar um landið til matarinnkaupa í aðdraganda jólanna.
Viðskiptavinir Krónunnar lögðu fimm milljónir króna í söfnunina með frjálsum framlögum við afgreiðslu í verslunum um allt land. Krónan jafnaði upphæðina og rennur heildarframlagið óskert til tólf hjálparsamtaka í formi gjafakorta í Krónuna.
Að sögn Guðrúnar Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastjóra Krónunnar, er jólasöfnunin afar kær þáttur í starfsemi fyrirtækisins.
„Það er alltaf ánægjuleg stund að afhenda hjálparsamtökunum þá upphæð sem safnast í jólasöfnun okkar og viðskiptavina. Jólastyrkurinn er okkur afar kær og við erum þakklát viðskiptavinum fyrir samhuginn og viljann til að láta gott af sér leiða. Margt smátt gerir eitt stórt og með þessu getum við aðstoðað 500 fjölskyldur við matarinnkaupin um hátíðarnar. Það vonandi léttir aðeins undir og dregur úr álagi sem oft getur fylgt þessum árstíma,“ segir Guðrún.
Jólastyrkur Krónunnar er veittur í sjötta sinn en styrkirnir eru afhentir í formi gjafakorta, sem gerir styrkþegum kleift að velja sjálfir þá matarkörfu sem hentar hverri fjölskyldu best.
Meðal þeirra góðgerðarsamtaka sem hlutu styrk í ár eru Mæðrastyrksnefndir á Akranesi, í Kópavogi, Reykjavík og Hafnarfirði, Jólasjóður Fjarðabyggðar, Selfosskirkja, Landakirkja í Vestmannaeyjum, Velferðarsvið Reykjanesbæjar, Velferðasjóður Eyjafjarðarsvæðis, Soroptimistafélag Mosfellsbæjar, Rauði krossinn í Vík og Stórólfshvolskirkja á Hvolsvelli.

Komment