
Ágústa Ágústsdóttir, varaþingkona Miðflokksins, hefur nú stigið fram og greint frá langvarandi heimilisofbeldi sem hún segist hafa orðið fyrir af hendi fyrrverandi eiginmanns síns, Jóns Þórs Dagbjartssonar. Jón hefur áður hlotið dóm fyrir kynferðisbrot og er nú ákærður fyrir tilraun til manndráps gegn Hafdísi Báru Óskarsdóttur, fyrrverandi sambýliskonu sinni á Vopnafirði. Ágústa er í viðtali í nýjasta tölublaði tímaritsins Vikunnar.
Jón var árið 2010 dæmdur fyrir kynferðislega misnotkun á stúlku þegar hann starfaði á meðferðarheimilinu Árbót í Aðaldal. Á þeim tíma tók Ágústa upp hanskann fyrir Jón og sakaði stúlkurnar sem höfðu stigið fram um mannorðsmorð í fjölmiðlum. Það hafði djúp áhrif á þolendur, sem voru allar 16 ára gamlar og úr brotnum aðstæðum.
Nú hefur Ágústa ákveðið að segja sína eigin sögu. Hún lýsir því í viðtali í Vikunni, hvernig hún kynntist Jóni árið 1999 í Reykjavík og flutti skömmu síðar til Grindavíkur, þar sem hann leiddi mótorhjólaklúbbinn Fáfni, tengdan Hells Angels. Hún segir hann hafa verið heillandi og spennandi í fyrstu, en sambandið hafi brátt breyst í ógnarstjórn og ofbeldi.
„Hann tilheyrði þá vélhjólaklúbbnum Fáfni sem var tengdur Hells Angels og var formaður þessa klúbbs. Þetta fannst mér mjög spennandi af því að ég var sjálf þessi villta týpa og uppreisnarseggur. Þannig hafði ég alltaf farið í gegnum lífið, ég bjargaði mér og fór á hnefanum. Þó svo að skapið hafi verið mér oft til trafala, þá var það vöggugjöf því það kom mér áfram, í stað þess að verða undir. Það fylgdi mér allt mitt líf þó svo að það hafi ekki sést á mér því ég var ekki að brjótast út í skapofsa.“
Eftir að Jón hlaut dóm 2010, sat hann inni í eitt og hálft ár og kláraði refsingu sína með ökklabandi. Ágústa heimsótti hann vikulega í fangelsið á Akureyri. „Ég upplifði algjört hrun, af því að ég var búin að berjast svo mikið fyrir öllu. Mér fannst ekkert eftir nema að jörðin myndi opnast og gleypa mig. Þannig leið mér, ég var í „survival mode“ þar sem ég var að reyna að lifa af. Hann var færður í fangelsið á Akureyri og ég heimsótti hann í hverri viku. Mér fannst ég vera skyldug til að gera það og þannig var þrýstingurinn. Ég tók þá ákvörðun hins vegar mjög fljótlega að ég ætlaði alls ekki að sofa hjá honum í þessu fangelsi. Ég var svo brotin eftir hann og hafði sjálf mátt þola kynferðislegt ofbeldi í okkar sambandi. Í fangelsinu var gestaherbergi með svefnsófa sem var fyrir gesti og ég gat ekki hugsað mér að sofa hjá honum í þessum sófa. Mér leið bara eins og ég væri skítug þegar ég kom út. Alls konar fólk var búið að sofa þarna. Ég tilkynnti honum að ég gæti þetta ekki, en hann gat aldrei virt þetta og það var alltaf þrýstingur. Það endaði svo með því að ég ákvað að taka alltaf börnin með mér í heimsókn til hans. Þá varð hann argur og pirraður og hafði engan áhuga á því að vera með börnin.“
Þegar hann losnaði sýndi hann engan vilja til að sinna börnunum þeirra, en síðar birtist hann aftur með nýja konu, Hafdísi Báru. „Ekki einu sinni um helgar. Hann fékkst ekki til að skrifa undir skilnaðarpappírana fyrr en ári síðar. Svo einn daginn sendir hann mér skilaboð um að hann vildi koma og hitta börnin. Ég samþykki það og hann sendi mér að VIÐ séum að koma. Þá átta ég mig á því að það er komin önnur kona í spilið og það er Hafdís, sem ég hélt reyndar í fyrstu að væri elsta dóttir hans vegna aldursbilsins,“ segir Ágústa. Fljótlega fór ofbeldið að koma fram í því sambandi líka.
Hafdís hringdi síðar í Ágústu, skjálfandi og bað hana afsökunar fyrir að hafa ekki trúað henni fyrr. Þær tóku að mynda tengsl og Ágústa vonaðist til að Hafdís sleppi út úr sambandinu. Þegar það gerðist hafði Jón ráðist á hana, reynt að nauðga henni og síðar reynt að drepa hana. Hún sagði mér að hún væri að fara að kæra hann. „Hún fer til lögreglunnar en fær sömu viðbrögð og ég hafði fengið; Eru þetta ekki bara innihaldslausar hótanir? Hún leggur inn beiðni um nálgunarbann en fær höfnun á það deginum áður en hann reynir að drepa hana. Ennþá gekk hann laus og er ekki tekinn í gæsluvarðhald. Sem betur fer var Hafdís hugrökk að stíga fram og segja sögu sína í fjölmiðlum, sem varð til þess að hann er loksins tekinn inn í gæsluvarðhald.“ segir Ágústa.
Aðalmeðferð í málinu gegn Jóni hófst 7. maí í Héraðsdómi Austurlands. Ágústa segir vilja fá svör við ýmsu. Til dæmis hvaða dóm hann fær? Hversu lengi fær hann að ganga laus áður en hann er tekinn inn? Og þegar hann loksins fer inn, hvað afplánar hann raunverulega mikið?.
Ágústa biður nú stúlkurnar á Árbót afsökunar opinberlega, í viðtalinu í Vikunni. Hún viðurkennir að framganga hennar hafi valdið þeim djúpum sársauka og þjáningu. Með því að segja sína sögu vonast hún til að varpa ljósi á skaðann sem ofbeldi og trúnaðarrof getur valdið, og að koma af stað umræðu um nauðsyn breytinga í kerfinu.
Komment