
AirPods Pro 3 heyrnartólin kosta á bilinu 28–65% meira á Íslandi en í átta öðrum löndum sem borin voru saman í nýrri úttekt Verðlagseftirlits ASÍ. Verðmunurinn er umtalsvert meiri en á nýjum iPhone símum, samkvæmt niðurstöðunum.
Vörurnar voru kynntar í byrjun september og settar í sölu í liðinni viku. Í úttektinni var skoðað verð á nýju iPhone-línunni, tveimur Apple-hulstrum og nýjum AirPods Pro 3. Niðurstöðurnar sýna að minnstur verðmunur er á símum en mestur á heyrnartólunum, en hulstrin féllu þar á milli.
Samkvæmt úttektinni var Elgiganten í Svíþjóð næst íslensku verðlagi, að jafnaði 7% undir verði hér á landi. Þar eru nýir iPhone-símar á svipuðu verði og á Íslandi, en AirPods Pro 3 eru 28% ódýrari en í systurfyrirtækinu ELKO. Í Danmörku jókst verðmunurinn lítillega og í Þýskalandi mældist hann 40%.
Í Bandaríkjunum, heimalandi Apple, eru heyrnartólin langódýrust og kosta þar ígildi rúmra 30 þúsund króna. Tekið skal þó fram að verð þar eru gefin upp án söluskatts, sem getur verið mismunandi eftir fylkjum, allt frá engum upp í rúmlega 10%.
Alls voru 17 vörur bornar saman og framkvæmdar 206 verðathuganir, miðað við verð og gengi sunnudaginn 21. september.
Komment